Rimaskólakrakkar sýndu það og sönnuðu í enn eitt skiptið hversu góð þau eru í skáklistinni. A sveit Rimaskóla sigraði líkt og sl. ár nokkuð örugglega á Reykjavíkurmóti grunnskóla 2015 og hlaut sveitin 25 vinninga af 28 mögulegum. Miklir afrekskrakkar þar á ferð og á öllum aldri. Það voru alls 27 nemendur skólans sem tóku þátt í Reykjavíkurmótinu fyrir hönd Rimaskóla og sendi skólinn 6 öflugar skáksveitir til leiks. B, C og D sveitirnar urðu í 5. 6. og 7. sætum mótsins, þ.e. fjórar Rimaskólasveitir í sjö efstu sætunum. Rimaskólakrakkarnir fá góða þjálfun frá Helga Ólafssyni stórmeistara og Birni Ívari frá Skákakademíu Reykjavíkur auk þess sem þau mæta reglulega á skákæfingar Fjölnis alla miðvikudaga. Mörg spennandi verkefni eru á dagskrá skáksnillinganna svo sem Íslandsmót, Miðgarðsmót, Rótarý – skákhátíð, Skákbúðir svo og heimsóknir í aðra grunnskóla. Reykjavíkurmeistarar, A sveit Rimaskóla eru Nansý 7-EH, Jóhann Arnar 9-BAS, Kristófer Jóel 10-SG, Joshua 4. bekk og Kristófer Halldór 7-EH. Liðstjórar voru þeir Dagur Ragnarsson og Jón Trausti Harðarson margfaldir meistarar með Rimaskóla á árunum 2008 – 2013.