Ingvar Hjartarson úr Fjölni hafði betur á endasprettinum gegn Þorbergi Inga Jónssyni í 5000 metra hlaupinu á Landsmóti UMFÍ á Selfossi um helgina. Ingvar er í hópi efnilegustu hlaupara landsins og verður spennandi að fylgjast með þessum 18 ára pilti í framtíðinni.
,,Auðvitað vilja allir vinna og maður reynir það alltaf sjálfur.Þetta gekk kannski ekki eins og ég vonaði, brjálaður vindur og fyrir vikið var hlaupið teknískt og fór rólega af stað. Það vildi enginn leiða hlaupið í byrjun en maður keyrði síðan upp hraðann og halda honum síðan. Þetta var síðan lokasprettur á milli mín og Þorbergs, þetta var tæpt en aðeins nokkrir metrar skildu okkur af,“ sagði Ingvar Hjartarson eftir hlaupið.
Ingvar sagði að mikið yrði að gera hjá honum á hlaupabrautinni í sumar. Hann sagðist fara 3-4 ferðir erlendis en hann er nýkominn heim þar sem hann keppti í Evrópubikarnum með íslenska landsliðinu í Slóvakíu og Gautaborgarleikunum. Á næstunni fer hann til Moskvu til að keppa í ólympíuleikunum í efnafræði og svo er hann að vonast eftir sæti á Norðurlandamóti U 20 í Finnlandi í haust.
,,Ég er að vona að ég geti bætt mig enn sem hlaupari en það á bara eftir að koma í ljós. Ég hef óskaplega gaman af þessu og stefnan að bæta sig enn frekar,“ sagði Ingvar Hjartarson.