Reykvískir grunnskólanemar stóðu sig einna best í PISA
Reykjavíkurborg birtir nú opinberlega niðurstöður PISA- rannsóknar 2012 eftir skólum, eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál kvað upp úr um að borginni væri skylt að birta þær. Í PISA 2012 stóðu reykvískir grunnskólanemar sig í heildina einna best, sé árangur eftir landshlutum skoðaður. Skóla- og frístundasvið hefur lagt áherslu á að skólastjórnendur nýti þessi gögn sem og önnur í umbótastarfi skólanna.
Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar leggur mikla áherslu á að greina þau gögn sem verða til um námsárangur og líðan nemenda í því skyni að starfsfólk grunnskóla hafi góðar upplýsingar til að byggja umbætur og þróun í skólastarfinu á. Niðurstöður úr PISA hafa verið nýttar í því skyni jafnvel þó að PISA- rannsóknin sé fyrst og fremst hönnuð til þess að gera áreiðanlegan samanburð hjá fjölmennum hópum nemenda, þ.e. samanburð á menntakerfum landa.
Þátttaka í PISA er valfrjáls og svarhlutfall misjafnt eftir skólum þótt skóla- og frístundasvið hvetji grunnskóla til að taka þátt í rannsókninni. Óvissan sem felst í notkun PISA niðurstaðna fyrir hvern og einn skóla er því mun meiri en t.d. í samræmdum könnunarprófum sem tekin eru árlega í íslenskum grunnskólum og ber að hafa þá staðreynd í huga við túlkun niðurstaðna.
Reykvískir grunnskólanemendur stóðu sig í heildina einna best sé árangur eftir landshlutum skoðaður í PISA 2012. Auk þess má í greiningu á niðurstöðum einstakra skóla sjá að talsvert margir reykvískir skólar fengu niðurstöðu sem jafnast á við þau lönd sem hæst skoruðu í PISA rannsókninni 2012.
Munur á meðaltali reykvískra skóla er í nokkrum tilvikum tölfræðilega marktækur en þrátt fyrir það sýna niðurstöður PISA 2012 að munur eftir skólum er langsamlega minnstur í íslenska skólakerfinu, að Reykjavík meðtalinni. Það merkir að jöfnuður milli grunnskóla hér á landi er með allra mesta móti í heiminum. Einnig má geta þess að niðurstöður um skólabrag og líðan nemenda í grunnskólum voru sérlega jákvæðar, bæði fyrir Reykjavík og landið í heild.
Samstarfshópur skólastjórnenda og starfsfólks skrifstofu skóla- og frístundasviðs leggur nú grunn að umbótaáætlun þar sem vellíðan, árangur, fagmennska og jöfnuður verða áfram lykilþættir í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Sem hluta af þeirri vinnu er starfshópurinn m.a. að skoða með Námsmatsstofnun hvaða þættir það eru í PISA sem reykvískum nemendum gengur vel og illa að leysa. Fyrstu niðurstöður þeirrar athugunar koma verulega á óvart.
[su_button url=“http://reykjavik.is/sites/default/files/pisa2012_kynning_til_rads_og_skolastjornenda.pdf“ target=“blank“ style=“3d“ background=“#1065bd“ radius=“0″]Pisa 2012[/su_button]
[su_button url=“http://reykjavik.is/sites/default/files/afrit_af_reykjavik_medaltol_haefnisthrep_fra_namsmatsstofnun.pdf“ target=“blank“ style=“3d“ background=“#1065bd“ radius=“0″]Niðurstöður fyrir Reykjavík[/su_button]