Fjölnisstúlkan Ylfa Ýr Welding Hákonardóttir sigraði glæsilega á stúlknameistaramóti Taflfélags Reykjavíkur sem fram fór um helgina. Ylfa Ýr sem er nemandi í 5. bekk Foldaskóla hlaut 6,5 vinninga af 7 möguleikum, gerði einungis eitt jafntefli en vann aðrar skákir.
Ylfa Ýr hlaut jafnframt verðlaun í flokki 9-10 ára og því ljóst að hér er mikið efni á ferð. Ylfa Ýr er mjög áhugasöm og efnileg skákkona, mætir á allar skákæfingar Fjölnis og fær leiðsögn frá Helga Ólafssyni stórmeistara og Birni Ívari Karlssyni frá Skákakademíu Reykjavíkur. Í 2.sæti á stúlknameistaramóti TR varð Valgerður Jóhannesdóttir með 6 vinninga og náði jafnframt bestum árangri 13-15 ára.
Valgerður æfir einnig með Skákdeild Fjölnis og er Íslandsmeistari með stúlknasveit Rimaskóla. Þessi góði árangur Fjölnisstúlkna er í takt við mikla þátttöku stúlkna á skákæfingum Fjölnis í haust.Skákdeild Fjölnis óskar Ylfu Ýr til hamingju með frábæran árangur við taflborðið.