Ég hjó eftir því snemmsumars að bæjarstýra Seltjarnarness tjáði sig í blaðagrein um niðurstöðu þjónustukönnunar sem Gallup gerir árlega í stærstu sveitarfélögum landsins, en þar kom fram að ánægja með þjónustu við barnafjölskyldur er mest á Seltjarnarnesi af þeim sveitarfélögum sem tóku þátt. Hún var lukkuleg með sinn bæ, eðlilega. Önnur smærri sveitarfélög á suð-vesturhorni landsins sem tóku þátt komu víst líka ágætlega út. Reykjavíkurborg sá hins vegar ekki ástæðu til að taka þátt í könnuninni í ár og mæla viðhorf borgarbúa til þess hvernig borgin sinnir íbúunum að þessu leyti. Ástæðan er sú að borgin tók þátt í könnuninni á síðasta ári og kom illa út úr þeim mælingum og borgarstjórnarmeirihlutinn hefur því að líkindum ákveðið að hætta að mæla óánægju borgarbúa til þess eins að kunngera hana almenningi.
Það blasir við samkvæmt þessum þjónustumælingum sveitarfélaga að ánægja íbúanna virðist vera mest í minni sveitarfélögum þar sem nærsamfélaginu er stýrt af íbúunum sjálfum. Það er því umhugsunarefni að skoða stöðu einstakra íbúðasvæða Reykjavíkur til áhrifa á sitt nærsamfélag í samhengi við minni sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Þar birtist nokkuð sérkennileg mynd.
Við vesturmörk Reykjavíkur er Seltjarnarnes og þar búa um 4.400 manns, eða sem nemur tæplega helmingi íbúa í Seljahverfinu í Reykjavík. Bæjarfulltrúar Seltjarnarness eru 14 talsins, þar af sjö aðalmenn. Sérstakur bæjarstjóri stýrir rekstri sveitarfélaginu. Allir bæjarfulltrúar þess og bæjarstjóri búa á Seltjarnarnesi og lifa og hrærast innan marka sveitarfélagsins sem telur 2 km², sem er tæplega helmingur af byggðu svæði í Breiðholti í Reykjavík, þar sem búa í heild 21.000 manns. Fasteignaverð á Seltjarnarnesi hefur hækkað umtalsvert á síðustu misserum, umfram meðaltal á höfuðborgarsvæðinu. Hvorki eru þó hús þar betur byggð en önnur né veðursældin meiri þar en í Reykjavík. Rökrétt er því að áætla að hækkandi fasteignaverð þar sé ekki síst tilkomið vegna mikilla áhrifa íbúanna á sitt nærsamfélag.
Við austurmörk Reykjavíkur er Mosfellsbær sem er um 185 km², að stærð (ekki þó allt í byggð) og telur u.þ.b. 9.500 manns. Þar stjórna 18 bæjarfulltrúar, þar af níu aðalmenn. Allir bæjarfulltrúar og bæjarstjóri búa í bænum og líkt og á Seltjarnarnesi, þá stýra íbúarnir sínum málum sjálfir, þekkjandi sitt nærsamfélag út í hörgul. Við suðurmörk borgarinnar er svo Kópavogur sem þekur í heild 80 km². Þar búa u.þ.b. 34.500 manns. Allir bæjarfulltrúar og bæjarstjóri búa í Kópavogi. Almennt séð var ánægja íbúa í Mosfellsbæ og Kópavogs með þjónustu sveitarfélagsins mikil, eftir því sem sagt er. Sömu sögu er að segja um sveitarfélögin Garðabæ með tæplega 15.000 íbúa og Hafnarfjörð, með um 28.000 íbúa. Íbúarnir þar stjórna sér sjálfir með eigin bæjarstjórnir og bæjarstjóra.
Í Reykjavík víkur öðru við. Þar eru íbúar um 123.000 sem dreifast u.þ.b. með þessum hætti í borgarhverfin pr. 1. janúar 2016; Miðbærinn í póstnr. 101 með um 15.800 manns; Vesturbærinn póstnr. 107, með um 8.600 íbúa; Austurbærinn póstnr. 103, 4, 5 og 8 með alls um 40.000 manns; Breiðholtið póstnr. 109 og 111 með um 21.000 íbúa, Árbærinn, póstnr. 110, með um 12.000 íbúa; Grafarvogur og Grafarholt, póstnr. 112 og 113 með um 23.000 íbúa og svo loks Kjalarnes, póstnr. 116, með tæplega 1000 íbúa.
Í Reykjavík eru 15 borgarfulltrúar. Af þeim búa tíu borgarfulltrúar í póstnr. 101 og 107. Því eiga tæp 70% kjörinna borgarfulltrúa sitt heimili sitt í mið- og vesturbænum, sem telur samtals um 24.000 íbúa. Hinir fimm fulltrúarnir eru búsettir þannig; einn er í 104, tveir eru í 105, einn í 108 og einn í 109. Af níu borgarfulltrúum meirihlutans búa sjö í mið- og vesturbænum en hinir tveir búa aðeins austar en þó vestan við Elliðaár. Er nema von að borgarapparatið sé meira og minna upptekið af vesturhluta borgarinnar. Eins og sjá má eiga fjölmenn borgarhverfi enga fulltrúa í borgarstjórn sem beinlínis búa í hverfinu. Svokölluð hverfisráð eru gagnslaus vettvangur fyrir íbúalýðræði eins og nýleg skýrsla borgarinnar sjálfrar um þau staðfestir. Nýverið mætti svokallaður svæðisstjóri Breiðholts í Kastljós RÚV til þess að ræða þessa afleitu slúðurskýrslu Rauða krossins um fátækt í Reykjavík þó að Breiðholtið væri þar þó aðeins til umfjöllunar, einkum nokkrar götur í Efra-Breiðholti. Þessi ágæti svæðisstjóri Breiðholts býr hins vegar ekki í hverfinu sem hann »stýrir« heldur í miðbænum í póstnr. 101, ekki langt frá borgarstjóranum sjálfum. Það að svæðisstjóri Breiðholts búi í 101 sýnir í hnotskurn grundvallargallana í stjórnsýslukerfi borgarinnar og þá mismunun sem ríkir í íbúalýðræði á höfuðborgarsvæðinu.
Ef rétt er að fylgni sé á milli gæða á þjónustu sveitarfélags og hærra fasteignaverðs og svo áhrifa íbúa á sitt nærsamfélag er ljóst að borgarbúar hafa allir verulega hagsmuni af því hvernig borgarfulltrúar eru valdir. Tæpast er hægt að una við það lengur að fólk búsett í vestasta hluta borgarinnar fari með öll völd og stjórni og stýri eftir sínu höfði hagsmunum allra borgarbúa í þessu fjölmennasta og víðfeðmasta sveitarfélagi landsins, meðan íbúar annarra hverfa borgarinnar eru nánast valdalausir um sitt nærumhverfi.
Fyrir liggur að borgarfulltrúum í Reykjavík mun brátt verða fjölgað úr 15 í 21. Í sama kosningafyrirkomulagi um val á borgarfulltrúum og nú gildir er líklegra en ella að þeir komi að miklum meirihluta úr vesturhluta borgarinnar. Það væri auðvitað óásættanlegt fyrir þá sem byggja hinn miklu fjölmennari austari hluta hennar. Það eru sýnilega tvær augljósar leiðir til að leiðrétta þetta ójafnvægi; Annað hvort að búta Reykjavík í sundur í smærri sveitarfélög þannig að til að mynda Breiðholtið og Grafarvogur og álíka fjölmennir borgarhlutar fengju að stjórna sínu nærsamfélagi sjálfir. Þá byggju íbúar borgarinnar við sama íbúalýðræði og áðurgreind nágrannasveitarfélög. Hinn kosturinn, sem er líklega raunhæfari, að kjördæmavæða Reykjavík og hvert kjördæmi borgarinnar fengi þá hlutfallslegan fjölda fulltrúa í borgarstjórn miðað við íbúafjölda þess. Að frátöldum þessum leiðum, þá er væntanlega aðeins eftir sá kostur að fólk í stærstu hverfum borgarinnar taki sig til og hafni þessum hefðbundnu framboðum í nafni stjórnmálaflokkanna og bjóði fram sína hverfislista. Eins og fyrirkomulagið er núna er augljóst að verulegur lýðræðishalli er í borginni sem þarf að minnka án tafar.
>> Tæpast er hægt að una við það lengur að fólk búsett í vestasta hluta borgarinnar fari með öll völd og stjórni og stýri eftir sínu höfði hagsmunum allra borgarbúa í þessu fjölmennasta og víðfeðmasta sveitarfélagi landsins