Gullnesti í Grafarvogi er heldur betur að stíga inn í nýja tíma en húsakynni staðarins hafa nú verið stækkuð um helming. Gullnesti hefur komið sér fyrir í þeim hluta sem Orkan var áður og geta 40 viðskiptavinir notið þess sem á boðstólnum er í þægilegu og góðu rými. Þegar okkur bar að garði hafði starfsfólkið í nógu að snúast enda hafði verið gífurlega mikið að gera í allan dag að sögn Daða Arngrímssonar eigenda Gullnestis.
,,Þetta eru mikil umskipti fyrir okkur og í raun gjörbreyting á staðnum og fyrir viðskiptavini. Salurinn tekur á móti 40 manns og mikil breyting hefur orðið á úrvali hvað ísinn varðar og matseðilinn verður svipaður til að byrja með en við ætlum að breyta honum þegar fram í sækir. Gullnesti er fjölskyldustaður og fyrir alla Grafarvogsbúa sem og aðra borgarbúa,“ sagði Daði Arngrímsson í spjalli við tíðindamann vefsíðunnar.
Daði sagði að þau væru búin að vera með rekstur á Gullnesti í um 20 ára en í upphafi var staðurinn við Gullinbrú en flutti svo síðar á Gylfaflötina þar sem hann er nú. Daði sagði að þau hefðu reyndar byrjað í Ferstiklu í Hvalfirði 1987 og voru þar í tæp tíu ár áður en komið var inn í Grafarvoginn. Daði sagði að á næsta ári ættu þau 30 ára rekstrarafmæli.
,,Reksturinn hefur alltaf gengið vel og þó ekki síst þegar við fluttum á þennan stað í Gylfaflötinni. Það hefur orðið hellings aukning í viðskiptum á þessu ári. Við lækkuðum verðið á ísnum fyrir þremur árum og það var gott skref. Við vonum bara að framhaldið verði með svipuðum hætti og við leggjum mikinn metnað í það að taka vel á móti viðskiptavinum og þjónusta þá vel,“ sagði Daði.
Þess má geta að þrátt fyrir þessar breytingar verður hægt að fá áfram eldsneyti í sjálfsafgreiðslu hjá Orkunni.
,,Viðskiptavinir taka þessari stækkun okkar gríðarlega vel og ég er mjög bjartsýnn á framhaldið. Við munum áfram veita þjónustu í gegnum lúgurnar eins og við getum. Þetta er orðið stórt og gefur okkur mikla möguleika í því að bæta þjónstuna enn betur. Nú getur fjölskyldan komið og notið þess að borða saman í huggulegu umhverfi. Það verður líka notanlegt að setjast inn og fá sér ís en um helgina verður lítill barnaís með dýfu á sérstöku tilboði á 99 krónur. Við erum full tilhlökkunar og það eru spennandi tímar í vændum í Gullnesti,“ sagði Daði Arngrímsson.