Vogin, samráðsvettvangur um skóla- og frístundastarf í Grafarvogi og á Kjalarnesi, hélt sameiginlegan starfsdag 9 október. Þetta er í fyrsta skipti sem sameiginlegur starfsdagur SFS er haldinn í Grafarvogi, þ.e. starfsfólks leikskóla, grunnskóla , frístundaheimila, frístundaklúbbs og félagsmiðstöðva. Alls starfa um átta hundruð manns á þessum starfsstöðvum og því var margmenni í Rimaskóla þar sem starfsdagurinn var haldinn.
Fjölbreytt dagskrá var í boði, en hún hófst á því að Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Gufunesbær, setti starfsdaginn en síðan ávarpaði Helgi Grímsson sviðstjóri skóla- og frístundasviðs samkomuna.
Hafsteinn Hrafn Grétarsson, deildarstjóri útivistar í Gufunesbæjar, kynnti þá möguleika sem útivistarsvæðið í Gufunesbæ býður upp á og hvernig má nýta það í útinámi. Andri Snær Magnason rithöfundur flutti erindi og fjallaði um mikilvægi þess að bjóða börnum og ungmennum upp á frjótt námsumhverfi og tækifæri til að vaxa og dafna hvort heldur í leikskóla, grunnskóla eða í frístundastarfi.
Eftir kaffi flutti Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Kringlumýrar, erindi um þægindahringinn og mikilvægi þess að útvíkka hann með lærdómi og að fara út á svokallað teygjusvæði. Rúsínan í pylsuendanum var svo leynigesturinn en það var enginn annar en Laddi sem kom fólkinu í sannkallað stuð með bröndurum og skemmtisöng.
Starfsdagurinn gekk vel og var ánægjulegt að allt starfsfólk skóla- og frístundasviðs í Grafarvogi og á Kjalarnesi fengi tækifæri til að hittast og fræðast um mikilvæg og sameiginleg fagmál.