Sorphirða Reykjavíkurborgar hefur fengið þrjá nýja metanknúna Scania bíla til að sinna losun grárra og blárra tunna í borginni og mun fá þann fjórða á næstu dögum. Þrír þeirra eru með tvískiptum kassa til losunar á tveimur úrgangsflokkum í einu. Við losun grárra og blárra tunna þarf nú einungis að keyra hverja götu einu sinni og minnkar það akstur og eykur hagræði í losun ílátanna. Pappírsefnin í bláu tunnunum fara til endurvinnslu í Svíþjóð en blandaði úrgangurinn úr gráu tunnunum og spartunnunum fer til urðunar í Álfsnesi.
Einn bíllinn er með krana, sem gerir kleift að losa djúpgáma og stærri ílát en áður. Metanið, sem knýr bílana, er fengið úr hauggasi sem streymir úr urðunarstaðnum í Álfsnesi og hefur nýting þess mikinn ávinning í för með sér þar sem það kemur í stað jarðefnaeldsneytis. Sorphirðu í Reykjavík hefur verið sinnt af níu metanbílum frá árinu 2008 og starfsfólkið hefur verið rúmlega 50 manns. Ætlunin er að skipta út öllum bílum sorphirðunnar á næstu árum.
Betri aðstæður fyrir sorphirðufólk
Nýju bílarnir bæta vinnuaðstæður starfsfólk sem sinna hirðu úrgangsíláta í borginni þar sem þeir eru útbúnir með helstu nýjungum sem hafa orðið á búnaði sorpbifreiða á síðustu árum. 47.581 tunnuígildi eru í Reykjavík í dag, þar af eru um 12.493 bláar tunnur undir pappírsefni.
Hundruð tonna á hvern starfsmann
Árið 2014 voru hirt alls 18.085 tonn af blönduðum úrgangi og 3.266 tonn af pappírsefnum eða samtals 176 kg á ári á hvern íbúa Reykjavíkur. Magn flokkaðra pappírsefna sem skilað er í bláu tunnuna hefur aukist um 27% frá því á síðasta ári. Þetta jafngildir að hver starfsmaður við sorphirðu handleiki að jafnaði um 450-500 tonn af úrgangi yfir árið.
Reykvíkingar munu taka eftir því að tvískiptur bíll losar gráu og bláu tunnuna í einni ferð en pappírsefnum er haldið aðskildum og flutt til endurvinnslu,“ segir Eygerður Margrétardóttir deildarstjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkjavíkurborgar og bætir því við að með þessari breytingu minnki akstur sorpbíla um borgina sem dregur úr kostnaði og minnkar umhverfisáhrif.