Þrettándagleði með söng og brennum verður á þremur stöðum í Reykjavík laugardaginn 6. janúar.
Þrettándagleði í Grafarvogi
Í Grafarvogi verður árleg þrettándagleði Grafarvogsbúa haldin við Gufunesbæ. Kakó- og vöfflusala verður í Hlöðunni frá kl. 17.00 og kl. 17.55 hefst blysför með álfum og jólasveinum. Kveikt verður í brennu og skemmtun á sviði kl. 18.00 þar sem Ingó Veðurguð heldur uppi fjörinu og gleðinni lýkur síðan með flugeldasýningu kl. 18.30.
http://reykjavik.is/threttandagledi
Þrettándaganga og gleði Grafarholts
Í Grafarholti verður safnast saman við Guðríðarkirkju um kl. 18.30 og lagt af stað í blysför kl.18.45 með Skólahljómsveit Grafarvogs í broddi fylkingar. Kyndlar verða seldir við Guðríðarkirkju og í Leirdalnum. Um kl. 19.15 kveikir brennukóngurinn Júlíus Eyjólfsson í glæsilegri brennu og jólasveinar taka lagið og skemmta börnunum. Dagskránni lýkur um kl. 20:00 með glæsilegri flugeldasýningu í boði FRAM.
Þrettándahátíð í Vesturbænum
Þrettándahátíð í Vesturbænum hefst kl. 18.00 við Melaskóla. Þar leiða ungmenni úr grunnskólum Vesturbæjar fjöldasöng og síðan verður gengið með blys að brennunni á Ægissíðu. Borinn verður eldur að kestinum kl. 18.30 og flugeldasýning verður kl. 18.45 og er hún í samstarfi við KR-flugelda. Þá verður Rauði krossinn með heitt kakó til sölu gegn vægu verði.