Talsvert meiri kjörsókn er í rafrænum íbúakosningum í Reykjavík í ár miðað við í fyrra. Á milli klukkan þrjú og fjögur í dag höfðu 5.700 manns kosið. Kosningunum lýkur á miðnætti í kvöld, þriðjudaginn 24. febrúar og því er enn hægt að greiða atkvæði.
„Kjörsóknin er talsvert meiri en í fyrra en þá voru ríflega 5.200 atkvæði talin upp úr hinum rafræna kjörkassa,“ segir Sonja Wiium verkefnisstjóri Betri hverfa 2015.
Þetta er í fjórða sinn sem rafrænar kosningar um Betri hverfi eru haldnar í Reykjavík. Kosningarnar snúast um smærri verkefni í hverfum borgarinnar en í þeim er kosið á milli innsendra hugmynda borgarbúa.
„Það er ánægjulegt að fleiri taki þátt í kosningunum nú en í fyrra,“ segir Sonja. „Talsvert fleiri sendu inn hugmyndir að verkefnum í haust þegar auglýst var eftir hugmyndum frá íbúum. Það má því merkja aukinn áhuga borgarbúa á þessu fyrirkomulagi.“
Kosningunum lýkur formlega á miðnætti í kvöld en kosningavefurinn verður opinn eitthvað fram eftir nóttu til að forðast álag sem getur myndast á vefinn við lokun. Reykjavíkurborg hvetur alla sem hafa náð 16 ára aldri og eiga lögheimili í Reykjavík til að kjósa á slóðinni https://kjosa.betrireykjavik.is
Kjörnefnd á vegum Reykjavíkurborgar hefur talningu strax í fyrramálið. Í henni sitja Helga B. Laxdal, skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjórnar, Sonja Wiium verkefnisstjóri Betri Reykjavíkur og Eggert Ólafsson gæðastjóri skrifstofu þjónustu og reksturs.
Úrslit kosninga ættu að verða ljós strax á fimmtudag.