Mælingarbíll verður á ferðinni næstu sex nætur og ekur hann samtals 250 km leið um götur borgarinnar. Bíllinn fer á aðeins 10 km hraða og eru því vegfarendur beðnir um að sýna aðgát og skilning ef hann verður á vegi þeirra.
Gögnum verður safnað í öllum hverfum borgarinnar. Mældur er ljósstyrkur, ljómi og jafnleiki, en það er hlutfall milli minnsta og mesta ljósstyrks á götu. Úttekin byggir á staðlaröðinni ÍST EN 13201 og er undirbúningur að endurnýjun götulýsingar í Reykjavík.
„Við fáum með þessum mælingum samanburð við lýsingu í öðrum borgum, en því hefur stundum verið haldið fram að borgin sé yfirlýst,“ segir Guðjón L. Sigurðsson, lýsingarhönnuður hjá Verkís um vinnuna. Framkvæmd mælinga annast þýska fyrirtækið Roch Services GmbH.