SÉRFRÆÐIÞJÓNUSTA VIÐ GRUNNSKÓLA

Markmið:
*Að veita markvissa og heildtæka þjónustu á þverfaglegum grunni til að mæta sérþörfum barna og fjölskyldna þeirra. Þjónustan er veitt á grundvelli þjónustusamnings á milli Menntasviðs, Velferðarsviðs og Íþrótta- og tómstundasviðs.
*Sérfræðingar þjónustumiðstöðvarinnar veita margháttaða ráðgjöf og þjónustu við leik- og grunnskóla. Í ráðgjöf og þjónustu felast sálfræðilegar athuganir og ráðgjöf, ráðgjöf vegna kennslu og sérkennslu og unglinga- og félagsráðgjöf.
Deildarstjóri sérfræðiþjónustu er Helgi Viborg, sálfræðingur.

Hvers má vænta þegar leitað er til sérfræðiþjónustu skólanna
Svo þjónusta ráðgjafa verði sem best er lögð áhersla á að gera umbótaáætlun fyrir viðkomandi barn hið fyrsta. Þjónustan er oftast einhvers konar samspil neðangreindra þátta:
bæta samspil barns og umhverfis, til dæmis með greiningu á vanda, ráðgjöf og handleiðslu til þeirra er koma að málefnum barnsins, svo sem til starfsfólks skóla og foreldra, með það markmið í huga að treysta tengsl þeirra við barnið, reynt er að stuðla að breytingum í umhverfi barnsins í skólanum eða á heimilinu, leitast er við að aðstoða skólann við það að efla samvinnu milli kennara innbyrðis og við foreldra barnsins,
ráðgjöf til foreldra, bæði sálfræði- og uppeldisráðgjöf,
fyrirlestrar eða námskeið fyrir starfsfólk skóla og/eða foreldra með það að leiðarljósi að gera alla hæfari í því að fást við erfiðleika hjá viðkomandi barni/börnum.

Stundum eru lagðar til tímabundnar sértækar breytingar, svo sem:
– sérkennsla í eða utan bekkjar,
– sértækar kennsluaðferðir,
– bekkjar- eða skólaskipti,
– vistun í aðlöguðu úrræði, svo sem sérskóla eða sérdeild/námsveri,
– tilvísun á sérhæfðari stofnun, svo sem: Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL), barnalækni/-geðlækni, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöð ríkisins, Miðstöð heilsuverndar barna (MHB) og Talþjálfun Reykjavíkur.

Eyðublöð og aðgengi að sérfræðiþjónustunni:
Aðgengi foreldra og skólanna í hverfinu að Miðgarði, Þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness er í megindráttum fimmþætt:

1. Hafa samband við tengilið skólans gegnum síma eða netpóst. Forráðamenn og starfsmenn skólanna geta nálgast þjónustuna með því að hringja í Miðgarð og biðja um samtal við sálfræðing skólans.  Ef viðkomandi er ekki við hefur hann samband við fyrsta tækifæri sé þess óskað.

2. Starfsmenn innan skólanna geta óskað eftir viðtali við tengilið skólans/ráðgjafa á þar til gerðu viðtalseyðublaði.  Eyðublaðinu skila starfsmenn til deildarstjóra sérkennslu sem kemur erindinu áleiðis.  Beiðninni verður svarað eins fljótt og auðið er.

3. Skólaráðgjöf. Stjórnendur skólanna geta óskað eftir aðkomu sérfræðiþjónustunnar að málefnum skólanna, s.s. varðandi handleiðslu, ráðgjöf og fræðslu til starfsmanna vegna nýbreytni og/eða þróunarstarfa á þar til gerðu tilvísunareyðublaði fyrir almenna sérfræðiþjónustu.

4. Einstaklingsmál. Málefnum einstakra nemenda er hægt að vísa til sérfræðiþjónustunnar. Tilvísun vegna einstaklingsmála verður að vera formleg með undirskrift forráðamanns og ábyrgðarmanns frá skóla á þar til gerðu eyðublaði fyrir bæði leikskóla og grunnskóla.

5. Málum sem vísað er til Viðbragðsteymis og tengjast einstaka nemendum, nemendahópum eða starfsmönnum skóla skal gera á tilvísunareyðublaði til Viðbragðsteymis. Málin geta t.d. varðað skólasókn, agabrot, lögbrot eða samskiptavanda milli heimila og skóla.