Stemningin var ólýsanleg á Arnarhóli þegar Ísland mætti Englandi á EM síðasta mánudag. Talið er að allt að 20.000 manns hafi mætt til að fylgjast með leiknum og hvetja landsliðið til sigurs.
Áhuginn á leik Íslands og Frakklands á sunnudag er ekki minni, nema síður sé, og því hafa aðstandendur EM torgsins: Íslensk Getspá, Landsbankinn, Icelandair, Coca-Cola, KSÍ, N1, Síminn og Borgun ásamt Reykjavíkurborg ákveðið að endurtaka leikinn og bjóða þeim aðdáendum landsliðsins sem ekki verða staddir á Stade de France í París að mæta á Arnarhól.
Skjárinn á sunnudagskvöldið við Arnarhól verður mun stærri ásamt því að skjárinn verður hækkaður eins hátt upp og mögulegt verður til að tryggja sem besta sýn á leikinn. Leikurinn hefst klukkan 19 og það borgar sig að vera mættur tímanlega. Aðgengi verður fyrir hjólastóla á sérstökum útsýnispalli.
Lækjargata verður lokuð frá morgni til kvölds á sunnudag til að auka aðgengi gangandi fólks að Arnarhóli. Allir aðrir leikir keppninnar verða áfram sýndir á EM torginu á Ingólfstorgi.
Allir eru hvattir til að koma og styðja strákana okkar og upplifa EM drauminn saman á Arnarhóli.