„Við grófsópum fyrst og í seinni umferðinni spúlum við með vatni allar húsagötur og ákveðnar tengibrautir,“ segir Guðjóna Björk Sigurðardóttir skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins um verklagið sem viðhaft er við hreinsun gatna og stíga.
„Fyrir seinni umferðina þegar við þvoum og sópum verður íbúum gert viðvart með bréfi og skiltum og þeir beðnir um að liðka til fyrir hreinsun með því að færa bíla úr götum sem verið er að hreinsa hverju sinni“, segir Guðjóna Björk.
Síðustu daga hefur verið grófsópað en gert er ráð fyrir að hefja götuþvottinn um miðja næstu viku. Um helgina verður byrjað að spúla lóðir við skólana sem þá eru komnir í páskafrí.
Helstu hjólastígar klárir fyrir páska
Allir hjólastígar og gönguleiðir innan hverfa eru sópaðar samhliða hreinsun í hverfinu, en allir helstu hjólastígar eða svokallaða stofnstígar milli borgarhluta verða hreinsaðir fyrir páska. Til verksins eru notaðir 8 götusópar, 3 vatnsbílar og 8 gangstéttasópar. Guðjóna Björk segir að vinna við fyrstu yfirferð gangi vel þrátt fyrir að óvenju mikill sandur sé bæði á götum og gönguleiðum. Miklu magni af sandi var dreift í vetur til að bæta öryggi gangandi vegfarenda í hálkunni.