Þétt fagsamstarf grunnskólanna í Grafarvogi hefur skilað sér í rafrænni handbók um námsmat samkvæmt nýrri Aðalnámskrá.
Hefð er fyrir faglegu samstarfi sjö grunnskóla í Grafarvogi og á Kjalarnesi. Þannig gáfu þessir skólar út sameiginlega lestrarstefnu á árinu 2011 og samstarf var um að innleiða Aðalnámskrá grunnskóla á skólaárinu 2014-2015.
Meginmarkmið þessa skólasamstarfs er að byggja upp öflugt lærdóms-samfélag í hverfinu með skýrri sýn og stefnu sem m.a. birtist í námskrá skólanna og námsmati.
Á síðasta skólaári fengu skólarnir sjö styrk úr Sprotasjóði til þess að endurskoða námsmat í tengslum við innleiðingu á Aðalnámskrá grunnskóla. Stýrihópur með fulltrúum allra skóla hefur haldið utan um það verkefni. Hann hefur nú þegar útbúið sniðmát fyrir kennara til að setja inn hæfniviðmið úr Aðalnámskrá fyrir hvern aldurshóp og leiðir til að ná þeim.
Inn í það sniðmát hafa kennarar einnig sett fram matsviðmið og tengt hæfniviðmiðunum þannig að nemendur eigi auðveldara með að setja sér skýr markmið í náminu.
Árný Inga Pálsdóttir, skólastjóri í Kelduskóla, segir á vefsíðu Reykjavíkurborgar þetta samstarf skólanna sjö afar gagnlegt. Það byggi á sterkum faggrunni sem veiti kennurum og skólastjórnendum öryggi við námsmatið. Þetta sé fjölbreyttara námsmat en áður sem meti alla þætti námsins, þekkingu, hæfni og leikni og sé um leið hvetjandi.
Sjá rafræna handbók fyrir kennara um leiðir að fjölbreyttu námsmati
Rafræn handbók með sýnishornum af matslistum fyrir leiðsagnarmat