Reykjavíkurborg óskar eftir hugmyndaríkum og áhugasömum einstaklingum eða hópum sem taka almenningssvæði í borginni í fóstur. Þetta er hluti af verkefninu Torg í biðstöðu sem snýst um endurskilgreina svæði í borginni sem ekki eru fastmótuð til framtíðar og gæða þau meira lífi.
Biðsvæðunum er úthlutað til hópa og einstaklinga sem vilja gera tilraunir til að gæða svæðin lífi. Um leið er reynt að vekja íbúa og aðra hagsmunaaðila til umhugsunar um sitt nánasta umhverfi og virkja þá til að taka þátt í að þróa svæðin til framtíðar. Verkefnið stendur að jafnaði yfir frá maí til september ár hvert og er ætlað að skapa skemmtilegri torg í lifandi borg.
Svæði sem hægt er að sækja um í ár eru eftirfarandi:
- Bernhöftstorfa
- Fógetagarður
- Óðinstorg
- Vitatorg
- Káratorg
- Hlemmur
Sérstök árhersla verður á borgarhátíðir í verkefnum sumarsins. Hóparnir sem taka að sér verkefni finna tímabundnar og skemmtilegar lausnir á sínu svæði og kanna möguleika þess með tilraunum. Umsækjendur eru einnig hvattir til þess að sækja um önnur svæði sem ekki eru á listanum. Í sumum tilvikum verður hópum falið að vinna með önnur torg en þau sem þeir sóttu um.
Hægt verður að sækja um til 30. apríl, valið verður úr umsækjendum fyrir 14.maí. Gert er ráð fyrir því að verkefnin verði tilbúin fyrir 17.júní.
Nánari upplýsingar fást með því að senda tölvupóst á netfangið hildurg@reykjavik.is. Umsóknir skal merkja „umsókn um biðsvæði“
Verkefnið hefur verið starfrækt á sumrin á torgum og almenningssvæðum í borginni frá árinu 2010. Nánari upplýsingar eru á vefsíðunni reykjavik.is/bidsvaedi