Markmið skátastarfsins
Meginmarkmið skátahreyfingarinnar er að stuðla að uppeldi og þroska barna, unglinga og ungs fólks af báðum kynjum á þann veg að þeir einstaklingar sem „skátauppeldis” njóta verði sjálfstæðir og sjálfum sér nógir, en jafnframt virkir og ábyrgir samfélagsþegnar. Samfélagsþegnar sem taka þátt í að betrumbæta þann heim sem við búum í, náttúrulegt og menningarlegt umhverfi og samfélag manna, bæði það sem næst okkur er og á alþjóðavísu.
Þannig hefur skátahreyfingin skapað sér uppeldishlutverk sem hún hefur eftir mætti reynt að rækja í yfir hundrað ár um allan heim. Skátahreyfingin starfar eftir sömu gildum í nánast öllum löndum jarðarkringlunnar og er fjölmennasta æskulýðshreyfing í heiminum. Þessu uppeldishlutverki sinnir skátahreyfingin með því að beita skátaaðferðinni, en hún gerir skátann sjálfan að lykilpersónu á vegferð sinni til að verða sú sjálfstæða og sjálfbjarga manneskja sem er fær um að veita öðrum stuðning en jafnframt að vera hluti af heild.
Mikilvægur hluti skátaaðferðarinnar er tilboð til hvers skáta fyrir sig um tiltekin persónuleg og félagsleg gildi skátalaganna sem verða nánast að lífsreglum sem skátar um allan heim aðhyllast.
Skátarnir.is