Íslandsmót barnaskólasveita í skák 2014, 1. – 7. bekkur, var haldið í Rimaskóla helgina 22. – 23. mars og mættu 49 skáksveitir til leiks sem er metþátttaka. Það má segja að „heimavöllurinn“ hafi reynst hinum fjórum skáksveitum Rimaskóla vel því við verðlaunaafhendingu kom í ljós að þær voru allar í fremstu röð.
A sveit Rimaskóla varð í 2. sæti mótsins á eftir Norðurlandameistarasveit Álfhólsskóla sem vann barnaskólamótið í 3. sinn í röð. Báðar sveitirnar, sem höfðu nokkra yfirburði á mótinu, tryggðu sér þátttökurétt á Norðurlandamót barnaskólasveita sem fram fer á Íslandi í haust. Í sveitinni eru systkinin Nansý 6-EHE og Joshua 3. bekk, Kristófer Halldór og Róbert Orri í 6-EHE og Mikael Maron í 4-SBH. B sveit Rimaskóla varð í 1. – 2. sæti B sveita, C og D sveitirnar urðu einnig efstar og besta stúlknasveitin og besta skáksveitin skipuð nemendum í 4. bekk og yngri komu líka frá Rimaskóla.
Nemendur 7. bekkjar Rimaskóla og foreldrar þeirra höfðu í nógu að snúast við veitingasölu á mótinu og fer allur ágóði sölunnar í skólabúðaferð krakkanna að Reykjum í maí.