Nú stendur yfir alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið í Hörpu sem vekur athygli um allan skákheiminn. Tólf skákmeistarar frá Fjölni á öllum aldri taka þátt í mótinu. Þar fer fremstur stórmeistarinn Héðinn Steingrímsson (2530) sem að eftir þrjár umferðir af 10 er í efsta sæti með fult hús ásamt rúmlega 20 öðrum skákmönnum.
Dagur Ragnarsson nýkrýndur Norðurlandameistari teflir á mótinu og eftir sigur í 1. umferð fékk Dagur að tefla á 1. borði í annarri umferð gegn stigahæsta skákmanni mótsins. Skákmennirnir efnilegu Oliver Aron og Jón Trausti eru mættir til leiks ásamt þeim Jóni Árna Halldórssyni, Erlingi Þorsteinssyni og Vigni Bjarnasyni. Allir þessir Fjölnismenn hafa teflt í 1. deild Íslandsmóts skákfélaga fyrir A sveit Fjölnis.
Á Reykjavik Open tefla tvær skákdrottningar úr herbúðum Fjölnis, þær Hrund Hauksdóttir og Norðurlandameistarinn og Íslandsmeistari 13 ára og yngri, Nansý Davíðsdóttir. Joshua bróðir Nansýjar sem er aðeins 10 ára gamall teflir nú á sínu 1. alþjóðlega skákmóti en ábyggilega ekki því síðasta. Loks ber að nefna Jóhann Arnar Finnsson sem er lykilmaður í sterkri skáksveit Rimaskóla.