Íslandsmóti skákfélaga í 1. – 4. deild lauk um helgina þegar síðari hluti mótsins var tefldur í Rimaskóla. Um 400 skákmenn tóku þátt í þessu fjölmennasta skákmóti ársins á Íslandi. Skákdeild Fjölnis heldur áfram að sýna sig og sanna sem eitt sterkasta skákfélag landsins og náði A sveitin sínum besta árangri frá upphafi þegar Fjölnir tók síðustu 4 umferðirnar með trompi, vann þær allar örugglega og endaði með því að bursta KR – inga 7,5 – 0,5.
Í A sveit Fjölnis eru 8 íslenskir skákmeistarar og þar á meðal 17 og 18 ára margfaldir Norðurlandameistarar með Rimaskóla 2008 – 2013. Bronssætið veitir skákdeild Fjölnis keppnisrétt á Evrópumóti skákfélaga sem fram fer í Novi Sad í Serbíu í haust. Mikill hugur er í Fjölnisskákmönnum að taka þátt í mótinu enda í fyrsta sinn sem deild innan Fjölnis nær á Evrópumót.
A sveit Fjölnis skipa Héðinn Steingrímsson, stórmeistari og Íslandsmeistari í skák, Davíð Kjartansson, Sigurbjörn Björnsson, Dagur Ragnarsson, Oliver Aron Jóhannesson, Jón Árni Halldórsson, Jón Trausti Harðarson og Tómas Björnsson.