Sandra Sif Gunnarsdóttir, sundkona hjá Sunddeild Fjölnis, vann eitt silfur og eitt brons í yngri flokki á Norðurlandamóti fatlaðra í Bergen í Noregi um síðustu helgi.
Norðmennirnir settu mótið upp þannig að keppendur fá stig fyrir það hversu nálægt þeir eru heimsmeti í þeirra fötlunarflokki. Þeir sem skora svo flest stig pr. grein fara með sigur af hólmi í annars vegar ungmenna (junior) og hins vegar fullorðins (senior) flokki óháð fötlunarflokkum. Sem sagt allir kepptu við alla.
Sandra vann silfur í 100 metra flugsundi á tímanum 1.40,78 og bronsið í 200 metra fjórsundi á tímanum 3:41,87.
Íslendingar urðu Norðurlandameistarar í tveimur greinum. Guðmundur Hákon Hermannsson, ÍFR, náði fyrsta sæti í hópi eldri keppanda (senior) í 400 metra skriðsundi á tímanum 5.00,89 mín. Í kjölfarið kom svo gull hjá Thelmu Björg Björnsdóttur, ÍFR, (junior) í sömu grein á tímanum 6.10,06 mín.