Skákdeild Fjölnis stóð fyrir undankeppni í BarnaBlitz á vikulegri skákæfingu á miðvikudegi. Þrátt fyrir að það gengi á með roki og slydduveðri þá þyrptust Fjölniskrakkar og efnilegir skákmenn úr öðrum hverfum og félögum til þátttöku um tvö laus sæti á BarnaBlitz. BarnaBlitz er einn af aukaviðburðum á Reykjavik Open 2015 í Hörpunni og eru það átta krakkar sem tefla þar til úrslita og glæsilegra verðlauna. Tefldar voru sex umferðir með sjö mínútna umhugsun. Rúmlega 30 skákkrakkar mættu til leiks og keppnin var jöfn og spennandi. Þegar fjórum umferðum var lokið voru þau Robert Luu og Nansý Davíðsdóttir jöfn að vinningum með fullt hús og tefldu því saman í 5. umferð. Þegar leið á skákina var Nansý komin í tímahrak með örlítið lakari stöðu. Þetta nýtti Róbert sér í þaula og vann skákina örugglega. Í lokaumferðinni kórónaði Robert glæsilega frammistöðu með því að sigra Sindra Snæ og klára mótið með fullu húsi. Systkinin Nansý og Joshua urðu í 2. – 3. sæti mótsins með 5 vinninga og í aukaskák um þátttökurétt á BarnaBlitz sigraði Nansý bróður sinn. Á Fjölnisæfingum er alltaf teflt um fjölda vinninga og einnig dregið í happadrætti. Í næstu sætum á eftir Roberti, Nansý og Joshua komu þeir Hákon Garðarsson, Sindri Snær Kristófersson, Einar Bjarki Arason, Halldór Atli Kristjánsson, Sæmundur Árnason, Jón Hreiðar Rúnarsson, Kristján Dagur Jónsson, Ísak Orri Karlsson og Ívar Björnsson. Þátttakendum var boðið upp á skúffuköku í skákhléi og kláraðist hún fljótt og vel. Skákstjóri var Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis og naut hann aðstoðar fjölda foreldra sem fylgdust með mótinu.
Úrslitin verða tefld á sviðinu í Hörpu laugardaginn 15. mars klukkan 12:00. Teflt verður með útsláttarfyrirkomulagi með tímamörkunum 4 02.