Að loknum mælingum í gegnum Skólapúlsinn á haustönn má sjá að nemendum líður almennt vel, áhugi þeirra á námsgreinum í grunnskólanum er mikill. Reykvískir nemendur eru einnig ofarlega í samanburði annarra sveitarfélaga hvað snertir ánægju af lestri og náttúrufræði.
Frá hausti 2008 hefur verið fylgst náið með virkni nemenda, líðan og skóla-og bekkjaranda í grunnskólum Reykjavíkur. Allir nemendur í 6.-10. bekk hafa í gegnum Skólapúlsinn svarað spurningum um námsáhuga, stuðning og samskipti við kennara, tengsl við nemendahópinn og um almenna líðan. Þannig er unnt að mæla sveiflur milli mánaða og árstíma í nemendahópnum og greina mun eftir kynjum og aldri nemenda. Alls taka 36 sveitarfélög þátt í þessum mælingum með um 85% allra grunnskólanemenda í landinu og því má einnig bera saman niðurstöður eftir einstökum sveitarfélögum og svæðum.
Að loknum mælingum á haustönn má sjá að nemendum líður almennt vel, áhugi þeirra á námsgreinum í grunnskólanum er mikill. Reykvískir nemendur eru mjög ofarlega í samanburði annarra sveitarfélaga hvað snertir ánægju af lestri og náttúrufræði. Þá hefur áhugi á stærðfræði aukist verulega frá því að mælingar hófust 2008. Nemendur í Reykjavík eru einnig jákvæðari í garð kennara sinna en í upphafi mælinga, telja þá m.a. áhugasama um að þeim líði vel og hlusti á tillögur þeirra. Nær enginn munur mælist á viðhorfum nemenda til kennara eftir aldri eða kyni.
Mælingar á líðan og sjálfsmynd komu einnig vel út og má þar sérstaklega nefna að minni kynjamunur er á mælingum á sjálfsmynd í Reykjavík en að jafnaði í öðrum sveitarfélögum auk þess sem marktækt færri nemendur í Reykjavík segjast hafa orðið fyrir einelti á síðastliðnum 12 mánuðum en annars staðar á landinu. Átta af hverjum tíu nemendum segjast upplifa gleði og brosa eða hlæja nær daglega en þó má benda á að um 12-15% nemenda upplifa reglulega streitu, reiði eða hafa áhyggjur af einhverju sem tengist þeirra daglega lífi.
Niðurstöður úr Skólapúlsinum eru fyrst og fremst nýttar í hverjum skóla til að fylgjast með líðan og virkni nemenda, við sjálfsmat og stefnumótun, auk þess sem starfsfólk í félagsmiðstöðvum í Reykjavík nýtir hluta þeirra í sama tilgangi. Heildarniðurstöður fyrir Reykjavík eru skoðaðar reglulega í skóla- og frístundaráði og nýttar í stefnumótun. Þessar niðurstöður er að mestu leyti sambærilegar við niðurstöður sem Rannsóknir og greining hafa sent frá sér og eiga við vorönn 2013. Þar má m.a. nefna að níu af hverjum tíu nemendum leið yfirleitt vel í skólanum og mikill meirihluti þeirra átti marga vini. Þá falla þessar mælingar að niðurstöðum PISA rannsóknarinnar sem sýndi góða líðan íslenskra nemenda í samanburði við önnur OECD-lönd.