Frístundamiðstöðin Gufunesbær stóð fyrir réttindagöngu í tilefni af 25 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Börn af frístundaheimilum í Grafarvogi gengu fylktu liði frá Rimaskóla að Hlöðunni í Gufunesbæ en þau hafa á undanförnum dögum verið að kynnast efni Barnasáttmálans. Mörg þeirra báru spjöld sem þau höfðu búið til og skrifað á kröfur sínar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók þátt í göngunni og lýsti yfir ánægju sinni með þetta framtak barnanna.
Barnasáttmálinn var lögfestur hér á landi 2. febrúar 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf. Það var mikilvægur áfangi því nú er Barnasáttmálinn lagður til grundvallar þegar fjallað er um réttindi og skyldur barna og ungmenna. Þetta er í fyrsta sinn sem frístundaheimilin í Grafarvogi fara í réttindagöngu, en stefnt er að því að hún verði árlegur viðburður.