Rafræn þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar tekur til starfa innan tíðar. Rafræn þjónustumiðstöð á að hafa þann megintilgang að þróa og breyta framlínuþjónustu borgarinnar á þann veg að sjálfsafgreiðsla verði ávallt fyrsti valkostur borgarbúa þar sem því verður við komið.
Rafrænni þjónustumiðstöð verður falið að stuðla að opnun rafrænnar gagnagáttar um fjármál borgarinnar, utanumhald og eftirfylgni með opnun annarra ópersónugreinanlegra gagna og birtingu fundargerða og fylgigagna ráða og nefnda borgarinnar, í samræmi við upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar og aðra samþykkta stefnumörkun um viðfangsefnin.
Rafræn þjónustumiðstöð verður leiðandi í þróun þjónustuveitingu borgarinnar og verður staðsett á skrifstofu þjónustu og reksturs. Í upphafi er gert ráð fyrir fjórum stöðugildum innan einingarinnar, stjórnanda og þremur starfsmönnum, og einnig framlagi á fjárfestingaáætlun.
Skrifstofa þjónustu og reksturs leitar nú eftir deildarstjóra rafrænnar þjónustumiðstöðvar. Um er að ræða spennandi og krefjandi brautryðjendastarf en deildarstjóra er ætlað að leiða uppbyggingu einingarinnar, þróun hennar og daglegan rekstur. Umsóknarfrestur rennur út þann 12. september næstkomandi.