Menningarnótt er stærsta hátíð sem haldin er á hér á landi og mikil áhersla lögð á skipulag og öryggismál í miðborginni. Hátíðarsvæðið er lokað fyrir bílaumferð en lokanirnar afmarkast við Snorrabraut, gömlu Hringbraut, Ægisgötu og Mýrargötu. Sæbraut er lokuð frá Snorrabraut. Þetta er eini dagur ársins sem þörf er á svo umfangsmiklum götulokunum.
Á Menningarnótt er miðborgin ein allsherjar göngugata og verður því lokuð fyrir bílaumferð frá kl. 7.00 að morgni til kl. 2.00 eftir miðnætti. Hátt í 300 viðburðir eru í boði í miðborginni og mikilvægt að tryggja öryggi gesta og viðburðahaldara á hátíðarsvæðinu.
Lokunarsvæðið þjónar einnig þeim tilgangi að halda götum greiðum til að sjúkrabílar, lögreglubílar og slökkviliðsbílar geti auðveldlega komist að ef þörf er á. Rúmlega 40 stofnanir, félagasamtök og sérfræðingar koma að útfærslu götulokana, öryggismála, löggæslu og samgangna. Það er ábyrgðarhluti að halda utan um öryggismál á svo stórri hátíð en síðustu ár hafa yfir 100.000 gestir komið í miðborgina á þessum degi. Í ár er búist við sambærilegum fjölda auk þess sem mikill fjöldi ferðamanna er í miðborginni.
ÓKEYPIS STRÆTÓSAMGÖNGUR
Gestir Menningarnætur eru hvattir til að nýta sér ókeypis strætósamgöngur, hjóla eða ganga í bæinn en akstur strætó verður að mestu eins og aðra laugardaga. Vegna götulokana í miðborginni mun strætó aka að og frá Hlemmi og gömlu Hringbraut. þar sem leiðir um miðbæinn stöðvast. Hefðbundið leiðakerfi verður síðan gert óvirkt kl. 22.30 og áhersla lögð á að flytja gesti úr miðbænum frá gömlu Hringbraut og Hlemmi. Síðustu ferðir verða farnar kl. 01.00. Sérstök skutluþjónusta Strætó verður starfrækt frá kl. 7.30 að morgni og til kl. 1.00 eftir miðnætti. Þjónustan er fyrir þá sem vilja komast hratt og örugglega inn á mitt hátíðarsvæðið. Skutlurnar aka frá bílastæði Íslandsbanka á Kirkjusandi með viðkomu á stoppustöðvum Strætó í Borgartúni og Hlemmi og þaðan er farið beinustu leið upp að Hallgrímskirkju og gömlu Hringbraut gegnt BSÍ. Skutlustöðvarnar verða merktar.
FERÐAÞJÓNUSTA FATLAÐRA
Sérstök bílastæði fyrir fatlaða og hreyfihamlaða eru á Skúlagötu, Túngötu og við Tækniskólann. Einnig verður hægt að taka leigubíl inn á Skólavörðuholt, Skúlagötu, Túngötu og BSÍ. Eftir klukkan 21.00 munu leigubílar við Skúlagötu færast yfir á gömlu Hringbraut við enda Njarðargötu. Sérstök salerni fyrir fatlaða eru á nokkrum stöðum á hátíðarsvæðinu.
FERÐAÞJÓNUSTUAÐILAR
Á Menningarnótt verður sérstök aðstaða fyrir hópferðabíla við Túngötu, Hallgrímskirkju og Skúlagötu. Stæðin eru ekki ætluð til að leggja í heldur einungis til þess að taka á móti og skila af sér farþegum.