Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði í gær formlega nýjan Frisbígolfvöll en í sumar hafa verið gerðir þrír nýir vellir og eru þeir nú orðnir fimm talsins í Reykjavík. Dagur segir borgarbúa hafa tekið þessu nýja sporti fagnandi. „Þessir vellir eru settir upp í kjölfar verkefnisins Betri hverfi þar sem Reykvíkingar komu með hugmyndir að því sem þeir vildu breyta og bæta í hverfinu sínu. Vellirnir er frábær viðbót í útivistarflóru borgarinnar, þeir bjóða upp á skemmtilega hreyfingu fyrir alla fjölskylduna. Það sést best á því hvað þeir eru mikið notaðir og ánægjulegt að geta spilað frisbígolf í fimm hverfum borgarinnar: Laugardal, Fossvogsdal, Breiðholti, auk Klambratúns og Gufuness,“ segir hann.
Ódýrt og aðgengilegt
Frisbígolfið hentar víða í almenningsgarða og útivistarsvæði og munu nýju vellirnir færa aukið líf á þessi svæði og fólk nýtur útivistar lengur en áður. Frítt er inn á alla vellina, ekki þarf að bóka tíma og reglurnar eru einfaldar og ekki þarf meiri búnað enn einn frisbídisk. Frisbígolfið hentar öllum aldurshópum og þegar einstaklingar með mismunandi hæfni eða reynslu spila byrja þeir á mismunandi teigum. Á hverjum velli eru 9 brautir og felst leikurinn í að kasta frisbídiski í sem fæstum köstum í sérútbúna körfu. Upplýsingaskilti sem sýnir skipulag vallarins og útskýrir leikreglur er á upphafsstað. Einnig eru vallarkort á vefsíðunni www.folf.is
Margir spila Frisbígolf að staðaldri og þeir hafa beðið nýju vallanna með óþreyju, segir Birgir Ómarsson formaður Íslenska frisbígolfsambandsins og hann er ákaflega ánægður með viðtökurnar. „Það hefur orðið algjör sprenging í frisbígolfi. Ungt fólk hefur gripið þetta á lofti, en leikurinn er fyrir fólk á öllum aldri og gaman að sjá fjölbreytnina í þeim hópi sem eru að uppgvöta þessa skemmtilegu íþrótt.“ segir Birgir.
Víða um borgina í tengslum við útivistarsvæði
Frisbívellirnir fimm eru staðsettir í tengslum við útivistarsvæði og nokkuð vel jafnað milli borgarhluta. Nýju vellirnir eru:
- Í Laugardal með upphafsstað við Holtaveg
- Í Fossvogsdal við göngu- og hjólastíginn vestast í dalnum við skógræktarsvæði borgarinnar. Helmingur vallarins er í Kópavogi og því má segja að hann henti vel fyrir þá sem vilja svífa milli sveitarfélaga.
- Í Elliðaárdal með upphafsstað sunnan Fella- og Hólakirkju.
Fyrir voru vellir á tveimur stöðum:
- Á Klambratúni með upphafsstað austan Kjarvalsstaða.
- Í Gufunesi með upphafsstað við Gufunesbæinn. Körfur og brautir voru endurbættar fyrr í sumar.