Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum 3. maí að stofna nýja sérdeild fyrir einhverfa nemendur við Hamraskóla í Grafarvogi.
Deildin verður fyrir allt að níu nemendur á yngsta og miðstigi grunnskóla og tekur til starfa næsta haust. Nemendur sem klára 7. bekk í einhverfudeild Hamraskóla munu eiga forgang inn í einhverfudeild á unglingastigi í Foldaskóla.
Jafnframt ákvað skóla- og frístundaráð að stækka sérdeild fyrir einhverfa nemendur á grunnskólastigi í Fellaskóla í Breiðholti og tvískipta henni í deild fyrir yngri og eldri nemendur, eða fimmtán nemendur frá og með komandi hausti.
Í grunnskólum Reykjavíkur verða því frá og með næsta hausti fimm sérhæfðar sérdeildir fyrir nemendur með einhverfu; í Foldaskóla, Hamraskóla, Langholtsskóla, Fellaskóla og Vogaskóla.