Nemendur 6. bekkjar í Rimaskóla fóru á kostum og unnu mikinn leiksigur þegar þeir settu upp leiksýningu á Ronju Ræningjadóttur í grenndarskógi skólans í Grafarvogi. Þetta var 5. árið í röð sem nemendur 6. bekkjar leika leikrit í skóginum sem er magnaður staður til að setja upp leikrit úti í guðsgrænni náttúrunni.
Allir nemendur árgangsins tóku þátt í leiksýningunni og lögðu þau sig öll fram við leik og söng. Nemendum Rimaskóla var boðið að sjá leikritið í skóginum á þremur leiksýningum og að auki var haldin ein foreldrasýning. Veðrið lék við leikara og „leikhúsgesti“ sem fylgdust með af miklum áhuga.
Öll skógarrjóður grenndarskógarins eru nýtt sem leiksvið og áhorfendur gengu á milli leikatriða. Ronju Ræningjadóttur er leikstýrt af Eggerti Kaaber leiklistarkennara Rimaskóla. Halli smíðakennari, Jónína myndlistarkennari, Rakel María tónmenntakennari, Erla og Jónas Örn umsjónarkennarar og stuðningsfulltrúarnir Ester og Fríða Margrét aðstoðuðu við æfingar, útbjuggu búninga og leiksvið.