Hrafn Jökulsson skákfrömuður hóf skákmaraþon í Hörpunni kl. 9:00 í morgun föstudaginn 6. mars og ætlar að halda því áfram til miðnættis á laugardag. Hrafn sem er með skákmarþoninu að styðja góðan málstað og safna framlögum í söfnun Fatímusjóðs og UNICEF í þágu skólahalds fyrir sýrlensk flóttabörn. Hann óskaði sérstaklega eftir því að fá að tefla við skákstúlkur í Rimaskóla, núverandi Íslandsmeistarasveit grunnskóla í stúlknaflokki.
Þær Nansý, Halldóra Hlíf og Sara í 7-EH og Valgerður og Heiðrún Anna í 8. bekk tóku áskoruninni og tefldu allar við Hrafn sem var ánægður með þá góðu taflmennsku sem þær sýndu. Norðurlandameistarinn Nansý Davíðsdóttir tefldi afar vel og þrátt fyrir tímaþröng þá knúði hún fram sigur á lokasekúntunum og var þar með sú fyrsta til að leggja Hrafn.
Nansý uppskar langt lófatak allra þeirra sem voru viðstaddir í Hörpunni og ekki síst Hrafns sjálfs sem var afar ánægður með endataflið hjá Nansý. (HÁ)