Miðnæturhlaup Suzuki fer fram í 24.sinn í kvöld fimmtudaginn 23.júní. Þó að skráningu sé ekki lokið er ljóst að fjölmennt verður í hlaupinu í kvöld því 2.480 hafa forskráð sig en það eru örlítið fleiri en forskráðu sig í fyrra.
Þegar er búið að slá tvö þátttökumet í hlaupinu. 627 eru skráðir í hálft maraþon og hafa aldrei verið fleiri. Þá eru erlendir gestir fjölmennari en nokkru sinni áður, 880 eru skráðir sem er 27% fleiri erlendir þátttakendur en skráðu sig í heildina í fyrra. Flestir erlendu þátttakendanna sem nú eru skráðir koma frá Bandaríkjunum eða 321. Þá eru skráðir Bretar 160, Kanadamenn 108 og Þjóðverjar 44.
Í dag verður hægt að skrá sig í Laugardalshöll frá kl.16 og þar til 45 mínútum fyrir ræsingu hverrar vegalengdar. Á sama stað sækja forskráðir þátttakendur hlaupnúmerið sitt og önnur skráningargögn.
Hlauparar verða ræstir af stað á Engjavegi í Laugardal á eftirfarandi tímum:
Kl. 21:20 – Hálfmaraþon ræst á Engjavegi ofan við bílastæði Skautahallarinnar.
Kl. 21:50 – 5 km hlaupið ræst fyrir framan Laugardalshöllina.
kl. 22:00 – 10 km hlaupið ræst fyrir framan Laugardalshöllina.
Þátttakendur koma í mark í trjágöngunum við gömlu þvottalaugarnar fyrir neðan Skautahöllina. Reikna má með að flestir hlauparar verði komnir í mark um miðnætti og munu eflaust flestir láta þreytuna líða úr sér í Laugardalslauginni en þangað er öllum þátttakendum boðið að hlaupi loknu.
Í Miðnæturhlaupi Suzuki er að mestu hlaupið á stígum en þó að hluta til á götum. Sjá kort hér. Vegna hlaupsins verður truflun á umferð auk þess sem loka þarf nokkrum götum í stutta stund meðan hlauparar fara hjá. Hér á heimasíðu hlaupsins má nálgast nánari upplýsingar um hvenær götur eru lokaðar og búast má við truflun á umferð. Ökumenn sem eiga leið hjá eru góðfúslega beðnir að taka tillit til hlaupara og starfsmanna hlaupsins.
Þátttakendur geta valið milli þriggja vegalengda: hálfmaraþons (21,1 km), 10 km og 5 km. Allar hlaupaleiðir í Miðnæturhlaupi Suzuki eru löglega mældar samkvæmt reglum AIMS sem eru alþjóðleg samtök hlaupa. Því er allur árangur og met sem slegin eru í hlaupinu viðurkennd af Frjálsíþróttasambandi Íslands.
Heimasíða Miðnæturhlaups Suzuki með öllum helstu upplýsingum er http://marathon.is/midnaeturhlaup
Nánari upplýsingar veita
Svava Oddný Ásgeirsdóttir, hlaupstjóri, s. 898 9614
Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi, s. 868 6361
Kveðja
f.h. Reykjavíkurmaraþons
Anna Lilja Sigurðardóttir
annalilja@ibr.is
s. 868 6361