Menningarnótt verður haldin í tuttugasta skipti næstkomandi laugardag 22. ágúst og fagnar því stórafmæli í ár. Í tilefni þess verður sett upp ljósmyndasýning á Austurvelli á Menningarnótt með myndum frá fyrri hátíðum. Yfirskrift Menningarnætur er „Gakktu í bæinn!“ líkt og undanfarin ár með tilvísun til þeirrar gömlu og góðu hefðar að bjóða fólk velkomið og gera vel við gesti.
Viðburðir fara fram um alla miðborg og í ár verður sérstök áhersla lögð á hin ýmsu torg. Allir viðburðir hátíðarinnar eru gestum að kostnaðarlausu.
Menningarnótt var fyrst haldin 1996 og á þeim tíma hefur hún vaxið í að verða stærsta hátíð sem haldin er á Íslandi með yfir 100.000 gesti og hundruði viðburða. Mikil áhersla er lögð á aðgengis- og öryggismál og koma hátt í 40 ólíkir hagsmunaaðilar að skipulagningu og samráði þar sem farið er yfir nauðsynlegar lokanir, aðstoð meðan á hátíð stendur, löggæslu og aðkomu sjúkrabíla, samgöngur og margt fleira.
Í fyrra var í fyrsta skipti boðið upp á ókeypis skutlur niður í miðborg frá stórum bílastæðum við Kirkjusand og Borgartún undir slagorðinu Leggjum fjær og komumst nær. Sú þjónusta mæltist vel fyrir og verður aftur í boði í ár. Einnig verður ókeypis í strætó sem keyrir samkvæmt hefðbundinni leiðartöflu fram til kl. 23. Þá tekur við sérstök leiðartafla sem miðar að því að koma fólki hratt og örugglega heim úr miðborginni. Dagskrá Menningarnætur lýkur eftir flugeldasýninguna um kl. 23:10.
Hægt er að kynna sér allar upplýsingar um aðgengi og lokanir á vef Menningarnæturwww.menningarnott.is.
Höfuðborgarstofa heldur utan um undirbúning, skipulagningu og framkvæmd Menningarnætur í samstarfi við önnur svið borgarinnar, stofnanir, listamenn, félagasamtök og fjölda annarra. Bakhjarlar Menningarnætur eru Landsbankinn og Vodafone.