Um safnið
Bókasafnið í Spönginni er nýjasta safn Borgarbókasafnsins, en það var opnað 6. desember 2014. Það er um 1.300 fermetrar á tveimur hæðum og er bæði lyfta og stigi milli hæða. Á neðri hæð er afgreiðsla, upplýsingaþjónusta, barnadeild, unglingadeild, tímarit, myndbönd og tónlist. Á efri hæð eru skáldsögur og fræðibækur. Þar er einnig góð aðstaða til að lesa, læra og fræðast.
Ný húsakynni safnsins bjóða upp á möguleika á ýmsu viðburðahaldi. Haldnar hafa verið sýningar í nýja safninu, ýmiss konar dagskrá hefur verið í boði fyrir börn og fjölskyldur og fræðsluerindi hafa verið haldin í safninu. Stefnt er að auknu viðburðahaldi í nýja safninu í framtíðinni. Dagskráin er birt hér á heimasíðu, undir liðnum viðburðum, og er einnig birt í dagskrárriti Borgarbókasafnins.
Í safninu er starfandi tveir leshringir, annar fyrir börn og hinn fyrir fullorðna. Báðir starfa þeir yfir vetrartímann og hittist leshringur fullorðinna þriðja mánudag í mánuði kl. 17.15 og leshringur barna hittist vikulega, á miðvikudögum kl. 14.30.
Á safninu er hægt að kaupa aðgang að tölvum og einnig er boðið upp á þráðlaust net lánþegum að kostnaðarlausu.
Bókasafnið býður upp á fjölbreyttan safnkost. Auk bóka og tímarita eru hljóðbækur, myndbönd, tungumálanámskeið, margmiðlunarefni og tónlist á geisladiskum lánuð út. Dagblöðin eru keypt á safnið og er aðstaða til að lesa þau og nýjustu tímaritin góð.