ÚTIVISTARSVÆÐIÐ Í GUFUNESI
Það er margt hægt að taka sér fyrir hendur í kringum Gufunesbæinn. Þar er að finna göngu- og hjólastíga, grasflatir, rjóður og kolagrill sem hægt er að nota að vild. Fyrir framan Gufunesbæinn eru þrír strandblaksvellir, átján holu folfvöllur (frísbígolf) sem skemmtilegt er að prófa og brettapallar fyrir brettaáhugafólk. Á sumrin eru sett upp mörk á túni við bæinn þar sem öllum er frjálst að koma og spila fótbolta. Nánari upplýsingar er að finna á www.gufunes.is
Frístundamiðstöðin Gufunesbær var stofnuð haustið 1998 og er rekin af Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Vettvangur starfsemi Gufunesbæjar er frítími allra Grafarvogsbúa, en megináherslan er lögð á barna- og unglingastarf. Mikil áhersla er lögð á að bjóða upp á fjölbreytt og áhugavert frístundastarf en Gufunesbær hefur m.a. umsjón með öllum sjö félagsmiðstöðvunum í Grafarvogi, átta frístundaheimilum við alla grunnskóla í Grafarvogi ásamt því að reka frístundaklúbb fyrir fötluð ungmenni á aldrinum 10-16 ára.
Eitt mikilvægasta markmiðið í starfi Gufunesbæjar er að stuðla að samheldni íbúanna í hverfinu og taka þátt í samstarfi og samskiptum við ýmsa aðila, bæði innan og utan hverfis. Aðstæður í “sveitinni” í Gufunesi eru mjög góðar til iðkunar útivistar. Á svæðinu er m.a. gamli bóndabærinn, hlaðan og súrheysturninn sem nýttur er til veggjaklifurs og auk þess er folfvöllur á túnunum við Gufunesbæinn og hjólabrettapallar. Nýlega var tekinn í notkun strandblakvöllur úr ekta skeljasandi.
Túnin og umhverfi Gufunesbæjar eru tilvalin til leikja og íþróttaiðkunar. Uppbygging þjónustu í frítímanum er ein af kröfum nútímans. Þar á að vera vettvangur tómstunda, menntunar, menningar og uppeldis undir handleiðslu hæfra starfsmanna.