Korpúlfsstaðir er „Jörð í Mosfellssveit næst við Eiði.
Kjalnesingasaga minnist fyrst á Korpúlfsstaði og skýrir frá Korpúlfi bónda, sem var orðinn gamall maður og fremur forn í brögðum. Korpúlfsstaðir vor sjálfstæð jörð 1234, eign Viðeyjarklausturs, en komust undir konung við siðaskiptin. Jörðin var seld 1810 og lítið af henni að frétta fyrr en kemur fram á 20. öldina.
Á síðari hluta 19. aldar átti Benedikts Sveinsson, yfirdómari og alþingismaður, jörðina. Einar, sonur hans, eignaðist hana að honum látnum og hann seldi Thor Jensen hana árið 1922. Thor hóf mikinn búrekstur og byggði húsið, sem enn stendur, árið 1929. Þar voru m.a. ráðsmannsíbúð, 39 herbergi fyrir vinnufólkið og matsalur fyrir 70 manns. Á þessum tíma var fjósið hið fullkomnasta á Norðurlöndum. Thor lét framkvæma gríðarlegar jarðarbætur, þannig að túnið var orðið 106 ha árið 1932, hið stærsta á landinu. Í árslok 1934 voru 300 kýr í fjósinu og mjólkurframleiðslan 800.000 l á ári. Mjólkin var gerilsneydd í mjólkurbúinu á staðnum. Mjólkursölulögin frá 1934 voru eins og hengingaról á mjólkurframleiðendur í Reykjavík og nágrenni og brátt dró úr búskapnum á Korpúlfsstöðum.
Reykjavíkur bær keypti Korpúlfsstaði og fleiri jarðir af Thor Jensen árið 1942 og búskap þar var haldið áfram fram undir 1970. Síðan voru húsin notuð sem geymslur og listamenn fengu þar inni til að iðka listir sínar. Margt verðmætt eyðilagðist í bruna 1969. Árið 1943 voru Korpúlfsstaðir og fleiri jarðir í Mosfellssveit innlimaðar í Reykjavík. Árið 1999 var hluti hússins innréttaður sem grunnskóli vegna mikillar fjölgunar íbúa á svæðinu. Golfarar þeytast nú um vellina, sem Thor lagði svo mikla vinnu í að rækta.
Þegar farið var eftir gamla þjóðveginum, sem lá meðfram túninu á Korpúlfsstöðum neðanverðu, var fyrst Litlaklif, lækjarskorningur sunnan við túnið. Rétt sunnan við það var móhellukafli í veginum nokkurra metra langur, sem alltaf vætlaði upp úr og var nefnt Bláavað. Vegurinn lá áfram suður Fossaleynismela eftir Stórapolli og áfram utan í Keldnaholti vestanverðu og suður yfir Hallsholt, sem er fram af Keldnaholti, en mun lægra. Egilsvörðumýri hét allur samfelldi gróðurhallinn gegnt bænum niður að Keldu, en hún náði alla leið úr Sundabörðum niður að sjó. Egilsvörðuás var vestan við Egilsvörðumýri, en vestan við hann tóku við Ásarnir. Þar var Ásamýri, og hvammur niður af henni heitir Stórajarðfall, en vestan við það var Rauðabásás, fremsti hluti langa ássins ofanvert við jörðina Eiði. Syðsti hluti þess áss heitir Hádegisás (hádegi frá Eiði) og annar hlutinn Veifuás.
Úr svonefndri Nónvörðu, sem er viðurkennt hornmark milli fjögurra jarða, Gufunes, Eiðis, Korpúlfsstaða og Keldna; bein lína í sjó fram, er skeri aðra línu dregna frá svonefndri Miðaftansþúfu, 100 föðmum fyrir innan áðurnefnda þúfu. Skurðpunktur þessara lína sé í beinni stefnu við hábrún svonefnds Hádegisáss, en Hádegisás er hæðin fyrir ofan Eiðisbæinn og hæst á honum er svonefnd Miðaftansþúfa.
Thor Jensen ræðir um landamerki Korpúlfsstaða í bókinni Framkvæmdaár sem er annað bindi minninga hans. Hann keypti jörðina árið 1922 af Einari Benediktssyni, en hún hafði verið eign föður hans, Benedikts Sveinssonar sýslumanns og fallið í arfahlut Einars. Þegar 1922 hóf Thor Jensen framkvæmdir á Korpúlfsstöðum. (Á Korpúlfsstöðum) hafði þá um mörg ár búið ekkjan Kristbjörg Guðmundsdóttir, ættuð frá Knútskoti, en sonur hennar, Guðmundur Þorláksson staðið fyrir búinu. Eitt fyrsta verk Thors var að láta mæla fyrir framræsluskurðum í mýrinni norður af Korpúlfsstaðatúninu sem hann nefnir Sjávarmýri. Þegar Thor ætlaði að láta girða landareignina vorið 1923 komu í ljós annmarkar og lýsir hann því í bókinni:„Eitt sjálfsagðasta verkið var að girða alla landareignina. Skyldi það gert vorið 1923, en þegar að því kom að ákveða girðingarstaði, kom í ljós, að landamerkin voru ekki sem gleggst á hinu ræktaða landi, þar sem búpeningur margra jarða valsaði um. Einkum átti þetta við um landamerkin milli Korpúlfsstaða og Keldna. Fór því fjarri, að hugmyndir manns um þau merki gætu samrýmzt. Sá ég, að til þess að endanlega úr þessu skorið, myndi þurfa áreið á landamerkin og langan málarekstur. Tók ég því það ráð að semja við eiganda Keldna um kaup á þrætulandinu, og mátti þá hver hafa þær hugmyndir, sem hann vildi um það, hver hin réttu landamerki hefðu verið áður. Vorið 1923, áður en girðingunni utan um landið var lokið, var landareignin smöluð og rekin þaðan 50 aðkomutryppi. Kotið hafði sem sé verið hið mesta fótaskinn til beitar.“ Landstærð Korpúlfsstaða var þá 450 ha.
Um leið og ræktunarframkvæmdir byrjuðu var hafizt handa með byggingar. Fyrst voru byggð fjós en síðan byrjað á aðalbyggingunni á Korpúlfsstöðum í apríl 1925.
Grunnflötur byggingarinnar er 30 x 80 m = 2400 m, eða nær 4/3 úr vallardagsláttu. Thor Jensen tókst að ljúka við nýbyggingarnar á Korpúlfsstöðum fyrir Alþingishátíðina 1930. Auk Korpúlfsstaða keypti Thor Lágafell og Varmá 1925, Lambhaga 1926 og Arnarholt 1927. Árið 1941 seldi hann Reykjavíkurbæ jarðeignir sínar, aðrar en hluta af Lágafelli.
Þjóðvegurinn vestur lá um Korpúlfsstaðaland og lá aðalleiðin um Ferðamannavað en að vetri til var oft ekki hægt að fara þar yfir og var þá farið Króarvað sem er nær sjónum.
Áin sem nefnd er Korpúlfsstaðaá þar sem hún fellur með landi Korpúlfsstaða er 4 km á lengd og kemur úr Hafravatni. Efri hluti árinnar er Úlfarsá og er notað sem heildarheiti árinnar þótt fleiri nöfn séu kunn. Hún er sambland af dragá og lindá og er vatnasvið hennar 45 km2. Nú er Korpúlfsstaðaá oft nefnd Korpa og segir Guðmundur Þorláksson að Emil Rokstad hafi fyrstur nefnt ána þessu nafni.
Áin milli Korpúlfsstaða og Blikastaða nefnist Korpúlfsstaðaá. Nafnið Korpa og Úlfarsá, eru þau nöfn sem notuð eru af heimafólki á Blikastöðum. Þá er veiðifélag árinnar kallað Veiðifélag Úlfarsár og eiga Blikastaðir 14% í ánni. Guðmundur Þorláksson segir að Emil Rokstad hafi fyrstur nefnt hana Korpu. Í Jarðabók Árna og Páls segir á bls. 309: „Laxveiði þriðja hvörn dag í Kortúlfstaðaá. … Skipsuppsátur við sjó og heimræði á haust, þá fiskur gekk inn á sund.“ Korpúlfsstaðir eru þó stafsettir á venjubundinn hátt í sömu jarðabók. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1752-1757 er talað um Kortólfsstaðaá og það gerir Skúli Magnússon einnig í sinni lýsingu á Gullbringu- og Kjósarsýslu frá 1785. Séra Magnús Grímsson á Mosfelli varpar fram nokkrum vangaveltum um Úlfarsá og Korpúlfsstaðaá í „Safni til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju“. Þar segir: „Eg felli mig vel við getgátu Gísla Brynjólfssonar, viðvíkjandi nöfnunum Korpúlfr og Korpúlfstaðaá, sem stendr í neðanmálsgrein í ritgjörð hans um goðorð í „Nýjum Félagsritum“, 13. ári, 48. bls. Nöfnin Úlfr og Úlfar eru svo lík, að vel má vera að áin, fellið og bærinn sé allt kennt við Úlf (Korpúlf = Hrafnúlf) þann, sem Korpúlfstaðir eru kenndir við. En af því það er ekki nema eitt handrit Landnámabókar (Landnámab. I, 10. í orðamun), sem hefir Úlfsá fyrir Úlfarsá, þykir mér vissara að áin og fellið hafi hvorttveggja verið kennt við einhvern Úlfar (Úlfarsfell, Úlfarsá), en bærinn við Úlf, ef það er þá ekki afbakað úr Úlfar (Úlfstaðir fyrir Úlfarstaðir, þ.e.: Korpúlfstaðir fyrir Korpúlfarstaðir), sem mér virðist hæglega geta verið. En hvað sem nöfnum þessum viðvíkr, ætla eg víst, að á sú, sem nú heitir Korpúlfstaðaá, sé hin forna Úlfarsá, og það er aðalatriðið sem hér ræðir um.“
Í sóknarlýsingu séra Stefáns Þorvaldssonar er vikið að laxveiðinni. „Laxveiði er nokkur í … Korpúlfsstaðaá, einkum við mynni þesarrar ár í Blikastaðakró.“ Þar er Blikastaðakró lýst enn frekar: „Þessi jörð hefir … notalega laxveiði í svonefndri Blikastaðakró, sem er fjörubás einn lítill með standklettum á 3 vegu og með garði fyrir framan með hliði á, sem sjór fellur út og inn um með útfalli og aðfalli, en með flóðinu er net dregið fyrir hliðið á garðinum, svo það byrgist inni, sem inn er komið.“ Þá segir: „Á Korpúlfsstaðaá milli Blikastaða og Korpúlfsstaða voru a.m.k. fjögur vöð, talin til sjávar: Stekkjarvað sem var á merkjum milli Hamrahlíðar, Blikastaða og Korpúlfsstaða. Nokkru neðar í ánni er Merkjafoss. Blikastaðavað sem var á götunni að Korpúlfsstöðum beint á milli bæjanna, Ferðamannavað fyrir neðan Efriásinn; þar lá þjóðleiðin áður. Veiðifoss er nokkru fyrir neðan Ferðamannavað. Króarvað er neðst, ofan við kletta. Skammt fyrir neðan Króarvað er Króarfoss einnig nefndur Sjávarfoss.
Neðan við Þúfnabanaflöt er holt með grjótgarði, er nefnist Efriás, og þar neðar er annar klettaás sem heitir Neðriás. Inn af Efraás neðan túns er Hrossaskjólsás; nær hann inn á merki. Fyrir neðan Neðriás er lítið nes fram í sjóinn er heitir Gerði. Björn Bjarnarson í Grafarholti nefnir það Blikastaðagerði í Árbók Fornleifafélagsins 1914. Það hefur einnig verið nefnt Blikastaðanes. Neðst á því er Gerðistá einnig nefnd Blikastaðatá. Fyrir austan Gerðið er Dýjakrókalækur, og mynni hans kallast Dýjakrókalækjarmynni. Fornar rústir og grjótgarður frá verslunarstað eða útræði eru niðri á sjávarbakkanum yst á fyrrnefndu Gerði. Staðurinn var friðlýstur 8. nóvember 1978 og friðlýsingarmerki sett upp sama ár. Helga og Sigsteinn telja að fornminjarnar hafi ekki mikið laskast frá því þau komu að Blikastöðum. Ásgeir Bjarnþórsson frá Knarrarnesi á Mýrum gerði út á grásleppu frá Blikastaðakró á fyrstu áratugum þessarar aldar.