Í dag, 22. febrúar, er konudagurinn. Við hér á grafarvogsbuar.is óskum öllum konum til hamingju með daginn. Blómaverslanir og gjafavöruverslanir opnuðu árla morguns en það er til siðs að karlar gefi konum blóm eða aðra gjöf á þessum degi. Bakarar láta heldur ekki sitt eftir liggja og baka sérstaka konudagsköku í tilefni dagsins.
Til gamans og fróðleiks gert er ekki úr vegi að velta fyrir sér þessum merka degi, hver er uppruni hans og saga. Á vísindavefnum segir orðrétt.
Elstu bókfestu dæmi þess að orðið konudagur sé notað um fyrsta dag góumánaðar eru frá því um miðja 19. öld, en það gæti verið langtum eldra í talmáli. Góa er næstseinasti mánuður vetrarmisseris samkvæmt hinu forníslenska tímatali og nafnið sést í elstu handritum eða frá því um 1200. Óvíst er hvað orðið merkir upphaflega en orðsifjafræðingar hallast helst að því að það eigi eitthvað skylt við snjó.
Sú tilgáta fellur vel að stöðu hennar í ævintýralegri fornaldarsögu, þar sem faðir Góu er Þorri, afi hennar heitir Snær og langafinn Frosti en föðursystur Mjöll og Drífa. Þar er nafn hennar reyndar Gói. Eftir þeirri sögu strauk Gói brott með strák á Þorrablóti einu. Þorri lét halda blót til að leita um það frétta hvar hún væri niður komin. Það kölluðu þeir Góiblót. Seinna breyttist nafnmyndin úr Gói í Góa.
Sennilega hafa menn í heiðnum sið haldið einhverja smáveislu í upphafi hinna gömlu vetrarmánaða. Þetta hverfur úr opinberu lífi við kristnitökuna en virðist hafa haldist við sumstaðar í heimahúsum.
Frá lokum 17. aldar er til kvæði eftir séra Bjarna Gissurarson í Þingmúla um gömlu Góu sem gengur um bæi og skoðar í búrið hjá húsfreyju. Í bréfi frá séra Jóni Halldórssyni í Hítardal til Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn árið 1728, segir að bændur eigi að innbjóða Góu á sama hátt og húsfreyjur bjóði Þorra: ganga út fyrir dyr kvöldið fyrir góukomu og bjóða henni inn sem góðum virðingargesti með fögrum tilmælum um að hún væri sér og sínum létt og ekki skaðsöm. Þetta virðast vera leifar af beiðni til fornra vetrar- eða veðurvætta.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1864 er sá munur frá eldri heimildinni að þar eiga húsfreyjur að taka á móti Góu. Hér kann að vera munur milli héraða. Á Suðurlandi voru margir karlmenn á vertíð um þetta leyti svo það kom í hlut húsfreyju að bjóða Góu.
Þorrafagnaður í heimahúsum virðist hafa verið hálfgert feimnismál á öldum hins kristilega strangtrúnaðar. Enn síður er þó getið um Góufagnað. Bar þar tvennt til. Í fyrsta lagi byrjar góa alltaf á sunnudegi svo þá var hvort eð var um skárri mat að ræða en aðra daga vikunnar. Í öðru lagi lenti Góukoma oftast inni í langaföstu svo þá þótti enn síður við hæfi að hafa nokkurn gleðskap í frammi.
Sem áður sagði fer heitið konudagur á fyrsta degi góu að breiðast út eftir miðja 19. öld, ef til vill frá Þingeyingum. Elsta dæmið er frá Ingibjörgu Schulesen sýslumannsfrú á Húsavík og nokkrum áratugum síðar kemur það fyrir í sögum eftir Guðmund Friðjónsson á Sandi í Aðaldal. Um 1900 er það orðið þekkt um allt land og árið 1927 hlýtur það þá opinberu viðurkenningu að vera tekið upp í Almanak Þjóðvinafélagsins.
Á fjórða áratug síðustu aldar taka kaupmenn að auglýsa sérstakan mat fyrir konudaginn og sumar stúkur Góðtemplarareglunnar auglýsa kvöldskemmtanir á þessum degi um 1940. Um miðjan sjötta áratug síðustu aldar taka blómasalar að auglýsa konudagsblóm. Upphafsmaður þess mun hafa verið Þórður á Sæbóli í Kópavogi, en fyrsta blaðaauglýsing sem fundist hefur frá Félagi garðyrkjubænda og blómaverslana er frá 1957.