Jón Margeir Sverrisson sundkappi úr Sunddeild Fjölnis vann til silfurverðlauna á Heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi sem fram fór í Glasgow í Skotlandi í síðustu viku. Jón Margeir kom í bakkann á tímanum 1:58,06 mín sem er annar besti tíminn hans í greininni. Rússinn Viacheslav Emeliantsev kom öllum á óvart um morguninn og sló heimsmet Jón Margeirs sem hann setti fyrr á árinu og vann svo gullið í úrslitum.
Heimsetið er því 1:56,27 og það er ljóst að á Ólympíuleikunum í Ríó þarf Jón að synda á 1:55 til að halda í Rússann. Það gefur okkur gott markmið til að vinna með á næsta keppnistímabili enn með því að ná í silfrið hefur Jón tryggt sér þátttöku á Ríó 2016.
Jón Margeir keppti einnig í 100m bringu, 200m fjórsundi og 100 baksundi og var að synda þau sund rétt við sína bestu tíma.
Almennt var þetta mjög sterk heimsmeistaramót, það sterkasta sem haldið hefur verið frá upphafi. Þar sem að það eru svo margir fötlunarflokkar eru ekki alltaf undanrásir í öllum flokkum enn á þessu móti voru 2-3 riðlar undanrásum í nær öllu greinum og fötlunarflokkum og íslensku keppendur komust allir í úrslit í einhverri grein og má því með sanni segja að þau séu flokki með þeim bestu í heiminum í dag.