Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, fylgdi þeirri hefð um helgina að höggva eigið tré í Jólaskógi Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Jólaskógurinn í ár er á Hólmsheiði rétt norðan við nýja fangelsið og er leiðin frá Suðurlandsvegi vel merkt. Skógræktarfélag Reykjavíkur nýtir hefðina til að grisja skógræktarsvæði sín og mun í staðinn fyrir hvert tré sem höggvið er gróðursetja fimmtíu ný. Á vef félagsins segir að Íslensk jólatré séu ræktuð án eiturefna og einnig er umhverfisvænt að þau eru ekki flutt á milli landa.
Jólaskógurinn er opinn allar helgar til jóla kl. 11-16. Alla dagana verður líf og fjör, jólasveinar verða á staðnum og logandi varðeldur. Hægt er að kaupa heitt kakó og smákökur og jólalögin sungin, segir á vef Skógræktarfélagsins – heidmork.is – og þar er einnig leiðarlýsing.
Nánari upplýsingar:
- heidmork.is – leiðarlýsing