Það var mikið um að vera í Rimaskóla í síðustu viku þegar 40 manna hópur skólastjórnenda og kennara víðsvegar frá Ítalíu kom í heimsókn þangað og kynnti sér skólastarfið. Forsvarsmaður ítalska hópsins var Sarah Spezially kennslufræðingur sem fyrir sex árum var skiptinemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og stundaði vettvangsnám við Rimaskóla í list-og verkgreinum.
Helgi Árnason skólastjóri tók á móti hópnum og ásamt sérstakri móttökunefnd sem í voru þau Jóhann Þór deildarstjóri, Sigrún Garcia námsráðgjafi og Sif H. Bachmann umsjónarkennari.
Ítölsku gestirnir heimsóttu bekkjardeildir og spjölluðu við kennara og nemendur skólans. Þeir hrifust af húsnæði og búnaði Rimaskóla og þeim hlýju móttökum sem þeir fengu.