Ísbúð Vesturbæjar verður opnuð í Brekkuhúsum 1 klukkan 12 á morgun, þriðjudag, og verður þetta um leið sjötta búðin á höfuðborgarsvæðinu. Ísbúð Vesturbæjar hefur notið mikilla vinsælda í gegnum tíðina og munu Grafarvogsbúar vafalaust taka opnun búðarinnar opnum örmum.
,,Það er mjög spennandi að opna búðina hér í Brekkuhúsum og það verður gaman að taka á móti Grafarvogsbúum sem og öðrum viðskiptavinum. Það er heilmikill undirbúningur að opnun svona búðar og í mörg horn að líta. Við erum mjög bjartsýn á þessa opnum enda hverfið stórt og stutt í önnur stór hverfi. Staðsetningin er góð og þetta er björt og falleg búð. Gamli ísinn, mjólkurísinn, hefur alltaf notið vinsælda og er sérstaklega búinn til fyrir Ísbúð vesturbæjar en svo erum auðvitað einnig með rjómaís. Nú bíðum við bara spennt og hlökkum til að taka á móti fólki,“ sagði Ástríður Haraldsdóttir, verslunarstjóri nýju verslunarinnar í Brekkuhúsum.
Ísbúð Vesturbæjar á langa sögu en fyrsta búðin á Hagamel 67 opnaði fyrir 42 árum síðan. Auk hennar eru reknar búðir á Grensásvegi, Hafnarfirði, Bæjarlind, Skipholti og loks í Grafarvogi.
Í tilefni af opnuninni í Brekkuhúsum verður boðið upp á ís tveir fyrir einn og stendur tilboðið fram á föstudag. Opnunartími búðarinnar er frá klukkan 12 til 23.30 alla daga.