Íbúafundir um uppstillingu hugmynda til rafrænna hverfakosninga verða haldnir í hverfum Reykjavíkur á næstunni. Dagana 11.-18. mars verða haldnar rafrænar hverfakosningar um verkefni í Betri hverfum. Áður en að því kemur er boðað til kynningarfunda með íbúum til að fara yfir þær hugmyndir sem bárust inn á vefinn Betri hverfi í nóvember.
Uppstillingu hugmynda er nú óðum að ljúka í hverfunum en fagteymi Reykjavíkurborgar og hverfisráðin sjá um þá vinnu. Farið verður yfir allar hugmyndir sem bárust í hverfunum á fundinum, bæði þær sem stillt verður upp í kosningunum og þær sem ekki voru valdar.
Á fundunum verður hægt að spyrja spurninga um ferlið og koma með athugasemdir. Þá eru hugmyndir um framtíð og þróun verkefnisins Betri hverfi sérstaklega velkomnar. Allar hugmyndirnar sem kosið verður um verða rækilega kynntar á vef Reykjavíkurborgar og víðar áður en kosningarnar hefjast.
Fundur í Grafarvogi verður haldinn 24. febrúar kl. 17-18 í Þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness í Miðgarði Gylfaflöt 5.