Hvatningarverðlaun velferðarráðs voru afhent við hátíðlega athöfn 10.apríl að Droplaugarstöðum. Fram kom í máli formanns ráðsins, Bjarkar Vilhelmsdóttur, að mikill mannauður býr í faglegu og óeigingjörnu starfi starfsmanna velferðarsviðs.
Alúð, nýbreytni og þróun var lykillinn að vali á þeim, einstaklingum, starfsstöðum og hópum sem hlutu verðlaunin fyrir árið 2013. Valdir eru þeir sem þykja til fyrirmyndar í starfi á sviðinu. Allir sem starfa á eða í samvinnu við velferðarsvið gátu sent inn tilnefningu til valnefndar.
Eftirtektarverður starfsstaður, hópur og verkefni
Velferðarráð veitti Hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum hvatningarverðlaun ráðsins í hópi starfsstaða. Vinnustaðnum hefur undir forystu Ingibjargar Ólafsdóttur náð ágætis árangri bæði í þjónustu við íbúa og við rekstur heimilisins. Á hjúkrunarheimilinu var ráðist í miklar breytingar sökum halla á rekstri sem skilað hefur góðum árangri. Bæði hefur tekist að reka heimilið farsællega fjárhagslega auk þess að gæði þjónustunnar sem þar er veitt þykir til eftirbreytni. Það var í tilefni dagsins að verðlaunin voru afhent að Droplaugarstöðum.
Það var Vettvangsgeðteymi Reykjavíkur sem valið var í flokki hópa. Teymið er samstarfsverkefni velferðarsviðs og Landspítala. Þar starfa sérfræðingar í þverfaglegu teymi undir stjórn Herdísar Hólmsteinsdóttur hjúkrunarfræðings. Teymið starfar sem bakland við geðfatlaða íbúa búsetukjarna og fyrir einstaklinga sem búa í sjálfstæðri búsetu og eiga við alvarlega geðræna sjúkdóma að stríða. Mikil ánægja er með störf og viðbrögð teymisins hvort sem er í þjónustu við notendur eða sem ráðgjafar við starfsfólk.
Þegar horft var til verkefna varð verkefnið „Lesum saman“ fyrir valinu en það er samstarfsverkefni milli þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts, Árbæjarskóla, Ingunnarskóla og Norðlingaskóla, Soromorphista og Félags eldri borgara. Tilgangur verkefnisins er að styðja og styrkja nemendur í heimanámi, ekki síst lestri, með aðstoð eldri borgara. Verkefnið stuðlar að bættu læsi auk þess að brúa kynslóðabilið. Verkefnið þykir hafa tekist svo vel að Félag eldri borgara hyggst færa það út í fleiri hverfi borgarinnar.
Verðugt framtak einstaklinga
Arndís Þorsteinsdóttir, sálfræðingur, varð fyrir valinu í flokki einstaklinga en í rökum með tilnefningu kemur fram að hún er ötull fagmaður, frumkvöðull og baráttukona fyrir uppbyggingu PMT foreldraþjálfunar á vegum Reykjavíkurborgar. Arndís er meðal fremstu fagmanna á sínu sviði. Hún hefur staðið fyrir innleiðingu PMT foreldrafærni í Reykjavík og veitt verkefninu forystu. Starf hennar hefur borið þann árangur að aðferðin er nú víðtekin, þekkt og virt með tryggan sess í starfi velferðarsviðs borgarinnar.
Að lokum var Sólveigu Jónsdóttur, félagsliða í Heimaþjónustu Reykjavíkur veitt sérstök viðurkenning fyrir farsælt starf á sviði velferðarmála í 33 ár. Sólveig hefur sinnt störfum sínum af einstakri alúð og m.a. hefur hún unnið á vernduðum heimilum þar sem geðfatlaðir einstaklingar búa. Sólveig hefur tekið að sér krefjandi og flókin verkefni í félagslegri heimaþjónustu, menntað sig sem félagsliða og sótt símenntun þegar tækifæri bjóðast. Hún er jákvæð fyrir breytingum og tekist á við þær með opnum huga, en breytingar hafa verið þó nokkrar á löngum starfsferli hennar. Sólveig er samviskusöm og trú í starfi.
Markmiðið með veitingu hvatningarverðlauna er að skapa hvetjandi vinnustaðamenningu og vekja athygli á gróskumiklu starfi í velferðarmálum Reykjavíkurborgar, auk þess að stuðla að aukinni nýbreytni og þróunarstarfi.
Valnefndin er skipuð fulltrúum velferðarráðs, skrifstofu velferðarsviðs, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og BHM. Í valnefnd vegna verðlauna fyrir árið 2013 voru: Björk Vilhelmsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Garðar Hilmarsson, Þórhildur Lilja Ólafsdóttir og Lóa Birna Birgisdóttir.
Alls bárust nefndinni 31 tilnefning sem er til marks um vel unnin störf á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.