Hverfið mitt verður opnað á miðvikudag en þar geta íbúar sett inn hugmyndir að nýframkvæmdum og viðhaldsverkefnum í Reykjavík. Mögulegt verður að setja hugmyndir á vefinn betrireykjavik.is frá miðvikudegi 25. maí til og með 15. júní.
Þetta er í fimmta sinn sem efnt er til hugmyndasöfnunar um slík verkefni á Betri Reykjavík og hafa nær 600 hugmyndir orðið að veruleika fyrir tilstilli þess. Að þessu sinni verður 50% meira fé ráðstafað til þessara verkefna, þ.e. 450 milljónum í stað 300 milljóna fyrri ár.
Íbúar ákveða hvað verður framkvæmt
Hugmyndasöfnun stendur í þrjár vikur og að henni lokinni þann 15. júní tekur fagfólk við og metur hugmyndirnar, gerir áætlanir um kostnað og kynnir fyrir hverfisráðum borgarinnar. Þau stilla upp 20 verkefnum sem íbúar kjósa um upp að vissri upphæð, sem er eins og áður segir 50% hærri en áður.
Íbúakosningar verða 1. – 8. nóvember 2017 og í kjölfarið verða verkefni boðin út til framkvæmda með góðum fyrirvara fyrir sumarið 2017. Gert er ráð fyrir að góður fyrirvari útboðsverka geti leitt til hagstæðari tilboða þar sem framkvæmdatími er rýmri en áður.
Myndarlegri hugmyndir
Vefsíðan Betri Reykjavík hefur verið endurbætt þannig að nú geta íbúar sett inn ljósmyndir eða teikningar með hugmyndum sínum til að skýra þær betur út og gera framsetningu þeirra líflegri. Hugmyndasmiðir geta einnig deilt sínu framlagi á samfélagsmiðla til að vekja athygli annarra á hugmyndunum. Einnig er gert ráð fyrir að staðsetning sé sett inn á kort þegar hugmynd er sett inn og þannig mun myndast gott yfirlit um hugmyndaríkustu svæðin.
Hverfið mitt – verkáætlun og tímasetningar
Verkefnið í heild er í fjórum fösum. Hugmyndasöfnun, úrvinnsla, kosningar og framkvæmd.
Helstu tímasetningar eru þessar:
Hugmyndasöfnun í þrjár vikur – 25. maí – 15. júní 2016.
- Fagteymi hjá umhverfis- og skipulagssviði metur innkomnar hugmyndir.
- Hverfisráðin í Reykjavík stilla upp 20 verkefnum í hverjum borgarhluta til kosninga.
- Rafræn kosning um verkefni til framkvæmda – 1. – 8. nóvember 2016.
- Undirbúningur útboðs. Verkhönnun verkefna og gerð útboðsgagna.
- Framkvæmd apríl til september 2017.
______________
Í frétt á vef Reykjavíkurborgar er myndefni > http://reykjavik.is/frettir/hugmyndir-ad-betri-reykjavik