Fjölmargar borgir í Evrópu standa fyrir hreinsunarátaki helgina 8. – 10. maí bæði til að fegra umhverfið og vekja fólk til umhugsunar um neysluvenjur.
Reykjavíkurborg tekur þátt í evrópsku hreinsunardögunum 8. – 10. maí 2015. Markmiðið er að fegra ásýnd borgarinnar með því að taka til í hverfinu sínu og finna leiðir til að draga úr sóun með breyttum venjum.
Næsta helgi er kjörin fyrir íbúa, húsfélög, íbúasamtök og heilu göturnar til að fegra umhverfi sitt fyrir sumarið með því að safna rusli í svarta plastpoka. Starfsfólk Reykjavíkurborgar mun svo fara um hverfin mánudaginn 11. maí og tína pokana upp. Hér er ekki átt við garðaúrgang því fólk fer sjálft með hann á endurvinnslustöðvar SORPU bs. eða endurnýtir í garðinum til dæmis með moltugerð.
Mjög mikilvægt er að taka til eftir veturinn og fyrir sumarið því annars er hætta á mengun ef plast og annað rusl fýkur út á haf eða festist í trjám og runnum. Evrópsku hreinsunardagarnir eru einnig ætlaðir til að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi þess að ganga vel um umhverfi sitt og draga úr sóun.
Hér eru nokkur ráð til að draga úr rusli og sóun: Henda aldrei rusli út á götu, hætta að nota plastpoka til innkaupa og nota frekar margnota innkaupapoka, finna leiðir til að draga úr matarsóun, drekka kranavatn – ekki flöskuvatn, spara prentarann, endurnýta fatnað, samnýta stærri tæki eins og sláttuvélar, fara með skó í viðgerð í stað þess að henda þeim.
Reykjavíkurborg leggur nú metnað sinn í að hreinsa og fegra borgina og hvetur borgarbúa til að taka þátt í evrópsku hreinsunardögunum helgina 8. – 10. maí. Endurvinnslustöðvar SORPU bs. eru opnar og auk þess mun starfsfólk hverfabækistöðva borgarinnar sækja svarta ruslapoka sem komið hefur verið fyrir á völdum stöðum t.d. eftir hreinsunarátak í hverfisgötum. Borgarbúar fara sjálfir með stærri hluti, húsgögn og timbur en almennt rusl í svörtum ruslapokum er sótt.
Tenglar