Það verður sannkallaður stórleikur í Grafarvoginum á mánudagskvöldið þegar Fjölnir og Leiknir leiða saman hesta sína í Pepsídeild karla í knattspyrnu.
Fjölnismenn hafa staðið sig með prýði til þessa og sitja í fjórða sætinu með 14 stig og hefur frammistaða liðsins vakið verðskulduga athygli. Leiknir, sem eru nýliðar í deildinni, hafa ennfremur verið að sýna góða takta og er komið með átta stig.
Margir segja að þarna mætist Grafarvogurinn og Breiðholtið og víst er öruggt að barist verður um stigin þrjú sem í boði eru. Fjölnir hefur fengið frábæran stuðning til þessa og hafa leikirnir í Grafarvoginum verið vel sóttir og vel yfir þúsund manns hafa verið á leik fram að þessu.
Stuðningurinn er ómetanlegur og eru Grafarvogsbúar eru hvattir til að fjölmenna og styðja vel við bakið á sínum mönnum. Viðureign Fjölnis og Leiknis hefst klukkan 20.00.