Knattspyrnudeild Fjölnis hefur gengið frá ráðningu Guðmundar Steinarssonar í starf aðstoðarþjálfara hjá meistaraflokki félagsins. Ólafur Páll Snorrason gegndi þessu starfi áður en eftir tímabilið tók hann við starfi aðstoðarþjálfara hjá Íslandsmeisturum FH.
Guðmundur Steinarsson gerði garðinn frægan á sínum knattspyrnuferli hjá Keflvíkingum en hann er leikja- og markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi. Guðmundur þjálfaði síðast lið Njarðvíkinga í knattspyrnu.
Ljóst er að mikill hugur er í Fjölnismönnum fyrir næsta keppnistímabil en liðið var hársbreidd frá því að tryggja sér Evrópusæti á síðasta tímabili.
Á myndinni er Guðmundur Steinarsson lengst til hægri með Ágústi Gylfasyni, þjálfara Fjölnis, og Árna Hermannssyni formanni knattspyrnudeildar Fjölnis.