Þegar farfuglarnir flykkjast heim til Íslands er vorið komið og sumarið á næsta leiti. Gunnar Þór Hallgrímsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, leiddu í gærmorgun frábæra ferð í Grafarvog þar sem farfuglarnir safnast saman.
Um tvö hundruð manns, fólk á öllum aldri, tóku þátt í fuglaskoðunarferðinni sem var afar fróðleg í alla staði. Ljóst er að Grafarvogurinn hefur að geyma gríðarlegt fuglalíf, kannski meira en margan grunar.
Það var sannarlega gaman í fuglaskoðunarferð Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands í gærmorgun. Vísindamenn Háskóla Íslands buðu upp á fræðslu um líf þeirra fugla sem bar fyrir augu en þátttakendur voru hvattir til að taka með sér sjónauka og fuglabækur til að fletta í. Sérfræðingarnir mættu svo með svakalega sjónauka sjálfir sem allir fengu að kíkja í gegnum. Einnig var hægt að fletta duglega upp í vísindamönnunum. Hvergi komið að tómum kofanum þar.
,,Fuglar geta flogið vegna þess að þeir eru léttir og hafa fjaðrir og langa framlimi sem mynda vængi. Það að geta flogið hefur gríðarlega kosti eins og til dæmis að geta yfirstigið landfræðilegar hindranir og numið afskekkt búsvæði. Fórnarkostnaðurinn við flugið er hinsvegar sá að fuglarnir hafa ekki efni á þungum meltingarfærum til að fullnýta fæðu sína og þeir geta ekki notað framlimina eða vængina við dagleg störf eins og flest spendýr. Þá er beinabygging fugla veikbyggðari en hjá spendýrum vegna þess að þeir hafa hol bein til léttingar fyrir flugið,“ segir Gunnar Thor Hallgrímsson, dósent við Háskóla Íslands.
„Fuglar eru ofarlega í fæðukeðjum og fuglarannsóknir gefa ódýrar vísbendingar um atburði á neðri fæðuþrepum. Fuglar flytja orku og áburð milli svæða, frjóvga plöntur, næra menn og fleiri verur. Fuglar bera líka sjúkdóma og geta valdið tjóni. Margt fleira mætti nefna af hagnýtum atriðum. Rannsóknir hafa líka miklu víðtækara og almennara gildi en það sem afmarkast af hagnýtum atriðum sem okkur tekst að tína til með nútímaþekkingu. Fuglarannsóknir eru líka skemmtilegar,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson sem hefur rannsakað fugla árum saman.
Margir af þeim farfuglum sem halda nú til í Grafarvogi eru langt að komnir. Ótrúleg ratvísi farfugla hefur enda lengi verið rannsóknarefni vísindamanna. Gunnar Þór Hallgrímsson, dósent, segir að sumir fuglar haldi sig þó nærri varpstöðvunum árið um kring. „Þeir eru heimakærir,“ segir hann.
„Til að rata stuttar vegalengdir á milli staða nota fuglarnir minni, alveg eins og mannfólkið sem þekkir hvar húsið sitt er staðsett í ákveðnu hverfi í tilteknum bæjarhluta.“
Myndirnar sem hér fylgja frá fuglaskoðunarferðinni tók Jón Örn Guðbjartsson.