Á vormisserinu verður tekið fyrsta skrefið að því að innleiða þjónustustaðal í skólamötuneytum borgarinnar þannig að hráefni sé sambærilegt að gæðum og matseðlar næringarútreiknaðir í samræmi við ráðleggingar Embættis landslæknis. Byrjað verður í Grafarvogi og á Kjalarnesi þar sem rösklega 2.000 nemendur eru í mataráskrift.
Við innleiðinguna verður eitt hverfi tekið í einu en markmiðið er að öll börn í borginni fái sambærilega næringaríkar máltíðir. Skólamötuneyti í fimm öðrum hverfum munu fylgja í kjölfarið á Grafarvogi og Kjalarnesi, þar á eftir mötuneyti leikskóla og frístundaheimila.
Verið er að setja saman sameiginlegan gagnagrunn fyrir matseðla þannig að sambærilegt hráefni verði í boði í skólamötuneytum hverfa á tilteknum dögum. Með því móti má áætla betur hráefnismagn og ná fram hagræði í innkaupum. Yfirmenn mötuneyta munu nýta þennan grunn við val á uppskriftum og matseðlum sem uppfylla orku- og næringarþörf barna miðað við aldur.
Á liðnu ári var á sett á laggir miðlæg stoðdeild hjá borginni til að styðja við starfsemi skólamötuneytanna með það að markmiði að hámarka og tryggja samræmd gæði þjónustunnar og ná fram hagkvæmni í rekstri. Í fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir 2014 var úthlutað viðbótarfjármagni til að bæta gæði hráefnis í skólamötuneytunum, tæpar 87 milljónir til grunnskólanna og rúmar 40 milljónir til leikskólanna.
Um 12.000 grunnskólabörn eru í mataráskrift í skólamötuneytum borgarinnar og er fjöldi hádegisverða þeirra um 2,1 milljón matarskammtar.Samkvæmt þjónustukönnunum skóla- og frístundasviðs eru 68% foreldra ánægðir með mötuneyti grunnskólanna, en 81% ánægðir með mötuneyti leikskólanna þar sem 6.000 börn fá allt að fimm máltíðir á dag. Á frístundaheimilunum fá um 3.000 börn millimáltíð.