Reykjavíkurborg býður borgarbúum upp á þann valkost að panta grænar tunnur undir plast við heimili sín frá 1. október, þær verða losaðar á 28. daga fresti. Gjald fyrir tunnuna verður 4.800 krónur.
Plastsöfnun við heimili í Reykjavík og breytt tíðni á losun tunna var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar 1. júlí. Boðið verður upp á hirðu við heimili á endurnýtanlegu plasti á 28. daga fresti frá og með 1. október 2015.
Íbúar geta valið um að fá tunnu undir plast við heimili sitt gegn gjaldi eða að fara sjálfir með plastið á grenndar- eða endurvinnslustöðvar SORPU. Gjald fyrir græna tunnu undir plast verður 4.800 krónur á ári.
Kannanir sýna að 52% borgarbúar vilja meiri þjónustu við flokkun á skil á endurvinnsluefnum við heimili sín jafnvel þótt þeir greiði fyrir þá viðbótarþjónustu. Aukin þjónusta stendur því Reykvíkingum til boða eftir 1. október 2015. Einnig bjóða einkaaðilar upp á endurvinnslutunnur þar sem plasti er safnað.
Flokkun plasts til endurvinnslu
20% efnis í blönduðum úrgangi í gráum tunnum borgarbúa er plast. Alls féllu til 18.085 tonn af blönduðum úrgangi frá heimilum í Reykjavík árið 2014 og því má búast við að ríflega 3.617 tonn af plasti hafi verið urðuð í Álfsnesi það árið. Verði flokkun plasts sambærileg og pappírs eða um 60% þá mun magn plasts sem skilar sér til endurvinnslu verða 1520 tonn umfram það sem nú er.
Rúmmálsminnkun í gráu tunnunni, verði þetta að veruleika, er ríflega 27% og því er ástæða til að endurskoða hirðutíðni tunnunnar og stærð í um þær mundir sem þessi plastsöfnun hefst við heimili.
„Endurvinnsla plasts kemur í veg fyrir sóun á orku og auðlindum og er flokkun og skil til endurvinnslu ein af forsendunum fyrir því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum plasts. Ævinlega er þó best að haga innkaupum sínum með það í huga að draga úr plastnotkun,“ segir Eygerður Margrétardóttirdeildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg.
Árangur endurvinnslu ræðst af þeirri þjónustu sem íbúar fá við flokkun og skil til endurvinnslu. Plast er eitt algengasta efnið í manngerðu umhverfi og notkun þess eykst frekar en hitt. Urðun plasts er ekki góður kostur en endurvinna má stóran hluta plasts og auk þess er brennsla til orkunýtingar er ákjósanlegri valkostur en urðun.
Kostnaður og gjöld
Gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs verður endurskoðuð samhliða þessum breytingum. Reykjavík hefur þá sérstöðu að íbúar greiða sorphirðugjöld eftir þjónustustigi og tekur gjaldtakan tillit til umhverfissjónarmiða, þ.e. tegund og magni úrgangs. Gjöldin eru þjónustugjöld og eru ákvörðuð samkvæmt lögbundinni auglýsingu og mega hvorki skila afgangi né krefjast niðurgreiðslu.
Skili breytt losunartíðni lækkuðum kostnaði þá kemur það fram í lægri sorphirðugjöldum sem nú þegar er með þeim lægstu á landinu. Tekið er tillit til fjölda tunna og losunartíðni.
Breytt hirðing um áramót
Næstu áramót verður grá tunna undir blandaðan úrgang tæmd á 14 daga fresti, eins og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, í stað 10 daga, til að mæta þeirri rúmmálsminnkun sem söfnun plasts í sér tunnu við heimili leiðir af sér.
Bláa tunnan undir pappír og pappa verður tæmd á 28 daga fresti í stað 20 daga áður. Græna tunnan undir endurnýtanlegt plast verður 240 lítra og losuð á 28 daga fresti. Grænan tunnan fær með þessu nýtt hlutverk frá og með 1. október en hún var áður undir blandaðan úrgang en losuð sjaldnar en sú gráa.
Gráa tunnan er undir blandaðan úrgang og verður losuð á 14 daga fresti eftir áramót, hún er 240 lítra. Þar sem lítið magn af úrgangi fellur til við heimili geta íbúar valið um að fá 120 lítra spartunnu undir blandaðan úrgang í stað 240 lítra. Hún verður einnig grá, jafnhá en mjórri og losuð á 14 daga fresti eins og hin.
Litur, flokkur, tíðni, stærð og gjald
Taflan sýnir stærð íláta, hirðutíðni og gjald þeirra íláta sem standa Reykvíkingum til boða frá 1. október.
Úrgangsflokkur | Stærð íláts | Tíðni 2015 | Tíðni 2016 | Sporphirðugjald | |
Græn tunna | plast | 240/660 l | 28 dagar | 28 dagar | 4.800 kr |
Blá tunna | pappír/pappi | 240/660 l | 20 dagar | 28 dagar | 6.700 kr |
Grá tunna | Blandaður úrgangur | 240/660 l | 10 dagar | 14 dagar | 21.700 kr |
Spartunna | Blandaður úrgangur | 120 l | 10 dagar | 14 dagar | 10.800 kr |
Fyrirspurnir um fyrirhugaðar breytingar er svarað af starfsfólki sorphirðunnar í síma 4 11 11 11 eða netfangið sorphirda@reykjavik.is. Unnt verður að dreifa tunnum undir plast eftir 1. október til þeirra sem hafa pantað.