Fjölmenni var í Ráðhúsinu sl. föstudag þegar þar stóðu yfir Stóri leikskóladagurinn. Áhugasamir leikskólakennarar og annað starfsfólk leikskólanna streymdi í Ráðhúsið þar sem hátt í fjörutíu leikskólar kynntu margvísleg verkefni sem endurspegla kraft, sköpun og fjölbreytt nám yngstu borgarbúanna.
Í Iðnó var fullt út úr dyrum á flestum fyrirlestrum en þar var m.s. fjallað um lýðræði og flæði í leikskólastarfi og þróun gæðastarfs með ungum börnum. Einnig var þar kynnt samstarfsverkefni leik- og grunnskóla á Selfossi, en leikskólar í Árborg eru gestir Reykjavíkur á Stóra leikskóladeginum.
Stóri leikskóladagurinn var nú haldinn í sjötta sinn og hefur vaxið að umfangi ár frá ári. Á sýningunni í Ráðhúsinu mátti kynna sér mörg skemmtileg verkefni leikskólanna eins og samstarfsverkefni HEBA –skólanna sem unnið hafa með Jörðina á liðnum vetri. Einnig mátti sjá þar skemmtilega búninga sem börnin í Sunnuási hafa gert, leirsmíði barna í Jöklaborg, rannsóknarverkefni barna í Sæborg svo fátt eitt sé nefnt. Börn úr leikskólanum Hofi komu á sýninguna og sungu fyrir gesti og frá Maríuborg kom hópur barna og sýndi dans.
Allir sem áhuga hafa á leikskólastarfi, barnauppeldi og menningu barna mega ekki að láta Stóra leikskóladaginn fram hjá sér fara.